Tveir sterkir leikmenn ÍBV og landsliðskonur eiga í erfiðum meiðslum um þessar mundir. Þar af leiðandi er óvíst hversu mikið þeir geta tekið þátt í næstu leikjum liðsins í úrslitakeppni Olísdeildarinnar en fyrsta umferð hefst í dag með tveimur leikjum. Þar á meðal fær ÍBV liðsmenn Stjörnunnar í heimsókn klukkan 13.30.
Birna Berg er meidd á ökkla og Sunna Jónsdóttir hefur ekki náð fullum bata af álagsbroti sem hún fékk í leik með íslenska landsliðinu síðla í mars í forkeppni heimsmeistaramótsins. „Ég missteig mig rosalega illa á fimmtudaginn og verð eitthvað frá,“ sagði Birna Berg í gær við handbolta.is en hún tók ekki þátt í lokaleik ÍBV í Olísdeildinni á síðasta laugardag af þessum sökum.
„Ég er í kappi við tímann og vona það besta. Ég er í stífri meðferð hjá sjúkraþjálfara og reyni að gera allt sem ég get til þess að ná einhverjum leikjum áður en tímabilinu lýkur. Tímasetningin er ömurleg en ég held í vonina,“ sagði Birna Berg Haraldsdóttir, landsliðskona og leikmaður ÍBV við handbolta.is.
Tekur langan tíma
„Ég verð í hópnum en er alls ekki orðin góð ennþá og hef lítið æft af þessum sökum,” sagði Sunna Jónsdóttir í gærkvöld. „Ég og við erum að reyna okkar allra besta til að koma mér aftur á völlinn en því miður ætlar það að taka langan og mjög krefjandi tíma að verða fullkomlega góð af þessum meiðslum,“ sagði Sunna ennfremur en hún hefur verið kjölfestan í ÍBV-liðinu á keppnistímabilinu.
„Ég gefst ekki upp og ætla svo sannarlega að reyna að gera mitt allra besta og hjálpa liðinu með það sem ég get á þessum skemmtilegasta tíma ársins fyrir handboltafólk,“ sagði Sunna Jónsdóttir.
Fyrsta viðureign ÍBV og Stjörnunnar í 1. umferð úrslitakeppni Olísdeildar kvenna hefst klukkan 13.30 í dag og verður hægt að fylgjast með honum í beinni útsendingu Stöðvar2Sports.