Íslendingaliðið HSG Blomberg-Lippe fór af stað af krafti í þýsku 1. deildinni í dag. Liðið lagði Buxtehuder SV, 31:26, á heimavelli. Staðan í hálfleik vart 14:7 fyrir Blomberg-liðið sem lék frábæra vörn.
Landsliðskonurnar Andrea Jacobsen, Díana Dögg Magnúsdóttir og Elín Rósa Magnúsdóttir voru atkvæðamiklar. Díana Dögg, sem hefur jafnað sig af hnémeiðslum, skoraði fimm mörk, átti eina stoðsendingu og var með þrjú sköpuð færi, auk þess að stela boltanum einu sinni og vinna andstæðing af leikvelli í eitt skipti.

Andrea skoraði þrjú mörk, gaf tvær stoðsendingar og var með einn stolinn bolta í vörninni.
Elín Rósa skoraði tvö mörk og gaf tvær stoðsendingar í sínum fyrsta leik í þýsku 1. deildinni. Einnig vann Elín Rósa eitt vítakast.
Aftur á heimavelli eftir viku
Næsti leikur Blomberg-Lippe í deildinni verður einnig á heimavelli eftir viku. Þá koma liðsmenn Tus Metzingen í heimsókn. Dortmund vann Metzingen í dag, 40:25, í Dortmund.