ÍR-ingar unnu sannfærandi sigur á nýliðum Kórdrengja í Austurbergi í kvöld í áttundu umferð Grill66-deildar karla í handknattleik, 34:24, eftir að hafa verið sjö mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 17:10. Þetta var annar sigur ÍR-inga í vikunni. Þeir eru áfram tveimur stigum á eftir Herði frá Ísafirði sem er í efsta sæti með 16 stig eftir að hafa unnið ungmennalið Aftureldingar eins og fjallað er um hér.
Leikmenn beggja liða létu finna vel fyrir sér í kvöld og höfðu dómarar leiksins, Árni Snær Magnússon og Þorvar Bjarmi Harðarson, í mörg horn að líta. Leikmenn voru utan vallar í samtals 24 mínútur. Fór svo að einn þeirra, Kórdrengurinn Matthías Daðason, fékk rautt spjald þegar rúmar fjórar mínútur voru til leiksloka.
Dagur Sverrir Kristjánsson fór mikinn í liði ÍR og skoraði 12 mörk. Sigurinn ÍR-inga var aldrei í hættu að þessu sinni.
Mörk ÍR: Dagur Sverrir Kristjánsson 12, Eyþór Waage 5, Andri Freyr Ármannsson 3, Kristján Orri Jóhannsson 3, Viktor Freyr Valsson 2, Theodór Sigurðsson 2, Hrannar Ingi Jóhannsson 2, Tómas Starrason 2, Viktor Sigurðsson 1, Ólafur Haukur Matthíasson 1, Skúli Björn Ásgeirsson 1.
Mörk Kórdrengja: Matthías Daðason 5, Tómas Helgi Wehmeier 4, Hjalti Freyr Óskarsson 4, Egill Björgvinsson 4, Halldór Árni Þorgrímsson 3, Þorlákur S. Sigurjónsson 2, Sigurður Karel Gíslason 1, Hrannar Máni Gestsson 1.
Stöðuna og næstu leiki í Grill66-deild karla má sjá hér.