Norska kvennalandsliðið hefur notið ótrúlegrar velgengni um áratuga skeið. Allt frá fyrsta Evrópumótinu 1994 hefur það verið í fremstu röð og unnið til gullverðlauna í sjö skipti af þeim 13 sem mótið hefur farið fram. Á morgun bætir norska landsliðið annað hvort við áttundu gullverðlaununum eða fjórðu silfurverðlaununum í safnið þegar það mætir ríkjandi Evrópumeisturum Frakka í úrslitaleik í Jyske Bank Boxen í Herning á Jótlandi.
Aðeins tvisvar hefur norska landsliðið farið heim án verðlauna af Evrópumóti, árin 2000 og 2018. Árið 2000 hafnaði það í sjötta sæti og í fimmta sæti fyrir tveimur árum.
Norska landsliðið hefur unnið sjö af tíu úrslitaleikjum sem það hefur tekið þátt í á Evrópumótum. Í hvert sinn sem liðið hefur verið taplaust í mótinu þegar það kemst í úrslitaleik hefur það unnið úrslitaleikinn. Að þessu sinni hefur norska landsliðið unnið allar sjö viðureignir sínar.
Selfyssingurinn Þórir Hergeirsson kom inn í þjálfarateymi norska landsliðsins 2001 og starfaði við hlið Marit Beivik landsliðsþjálfara allt þar til hún lét af störfum í árslok 2008. Þórir var ráðinn í hennar stað í kjölfarið enda mælti Breivik eindregið með honum í starfið.
Eftir að Þórir tók við í ársbyrjun 2009 hefur árangurinn verið þessi:
EM:
2010 – gull
2012 – silfur
2014 – gull
2016 – gull
2018 – 6. sæti
HM:
2009 – brons
2011 – gull
2013 – 5. sæti
2015 – gull
2017 – silfur
2019 – 4. sæti
Ólympíuleikar:
2012 – gull
2016 – brons
Meðan Þórir var hægri hönd Breivik landsliðsþjálfara frá 2001 til ársloka 2008 náðist eftirfarandi árangur:
EM:
2002 – silfur
2004 – gull
2006 – gull
2008 – gull
Ólympíuleikar 2008 – gull – norska liðið vann sér ekki inn keppnisrétt á ÓL 2004.
HM:
2001 – silfur
2003 – 6. sæti
2005 – 9. sæti
2007 – silfur