Tjörvi Týr Gíslason hefur samið við nýliða þýsku 2. deildarinnar, HC Oppenweiler/Backnang. Félagið sagði frá komu Tjörva Týs klukkan sex í morgun en hann er einn sjö nýrra leikmanna liðsins sem sótt hefur talsverðan liðsauka eftir að hafa unnið 3. deild, suðurhluta, í vor og umspil 2. deildar í framhaldinu.
Tjörvi Týr var á síðasta tímabili með Bergischer HC sem vann 2. deildina í vor en til þess félags kom hann frá Val fyrir ári síðan. Tjörvi Týr vildi gjarnan vera áfram í Þýskalandi í stað þess að koma heim, eftir því sem fram kemur í stuttu samtali við hann á heimasíðu félagsins.
Til suðurhlutans
HC Oppenweiler/Backnang er með bækistöðvar í bænum Oppenweiler í Baden-Württemberg, í suður Þýskalandi.
Just er þjálfari
Þjálfari er Stephan Just sem var línumaður hjá Eisenach og landsliðsmaður Þýskalands. Einnig lék Just með Magdeburg og fleiri liðum í efstu deild áður en hann sneri sér að þjálfun fyrir um áratug. Just var m.a. látinn taka pokann sinn hjá EHV Aue áður en Ólafur Stefánsson var ráðinn þjálfari Aue síðla árs 2023.
Just tók við þjálfun HC Oppenweiler/Backnang fyrir ári.
Karlar – helstu félagaskipti 2025
Íslendingar í þýsku 2. deildinni:
Eintracht Hagen: Hákon Daði Styrmisson.
Nordhorn-Lingen: Elmar Erlingsson.
HC Oppenweiler/Backnang: Tjörvi Týr Gíslason.
HC Elbflorenz Dresden: Viktor Petersen Norberg (hálfíslenskur).