„Ég tók bara tímabundið við þjálfun liðsins í byrjun desember. Þá þegar lá fyrir að aðeins væri um tímabundna ráðningu að ræða út keppnistímabilið. Ég vildi bara aðstoða félagið mitt,“ sagði Arnar Freyr Guðmundsson sem heldur ekki áfram þjálfun kvennaliðs ÍR.
Arnar Freyr stýrði liðinu í síðasta sinn á föstudaginn í lokaleiknum við HK í úrslitum umspilsins um sæti í Olísdeild kvenna. Eins og áður segir þá tók Arnar Freyr við þjálfun meistaraflokksliðs ÍR í byrjun desember þegar Jakob Lárusson hætti.
„Það er mikill efniviður fyrir hendi hjá ÍR-liðinu sem varð í öðru sæti í Grill66-deildinni í vetur og fór í úrslit í umspilinu. Ljóst er að hægt verður að byggja áfram á þeim efnivið og þeirri reynslu sem fengist hefur í vetur,“ sagði Arnar Freyr sem áfram verður yfirþjálfari yngri flokka ÍR þótt hann láti af störfum sem þjálfari meistaraflokks kvenna.
Þar með liggur fyrir að bæði meistaraflokkslið ÍR eru án þjálfara um þessar mundir. Samningur við Kristinn Björgúlfsson um þjálfun meistaraflokks karla er runninn út.
Eftir því sem næst verður komist vinnur ný stjórn handknattleiksdeildar að ráðningu þjálfara þessa dagana.