Grétar Ari Guðjónsson, markvörður, kom inn með stórleik í síðari hálfleik í kvöld þegar Nice sótti Dijon heim í frönsku B-deildinni í handknattleik. Frammistaða hans dugði ekki til og Dijon fór með sigur úr býtum, 30:26, eftir að hafa verið fimm mörkum yfir í hálfleik, 18:13.
Kollegi Grétars Ara varði ekki skot fram eftir öllum leiknum og var skipt út af þegar leikurinn hófst á ný í seinni hálfleik án þess að hafa verið svo lánsamur að verða fyrir boltanum í eitt einasta skipti. Grétar Ari varði 10 skot í síðari hálfleik, um 45 % hlutfallsmarkvarsla og óhætt að segja að Hafnfirðingurinn hafi átt stórleik.
Nice er þar með enn í hópi liðanna í neðri hluta deildarinnar. Liðið hefur eitt stig að loknum þremur viðureignum, hefur tapað fyrir Dijon og Cherbourg á útivelli en gert jafntefli við Strassbourg á heimavelli á síðasta föstudag. Grétar Ari hefur tekið þátt í tveimur síðustu leikjum liðsins en hann missti af þeim fyrsta sökum meiðsla.