THW Kiel hafði betur í heimsókn sinni til þýsku meistaranna SC Magdeburg, 34:33, í 1. deild karla í gær. Frábær endasprettur meistaranna dugði þeim ekki til að öngla í annað stigið. Kiel var þremur mörkum yfir í hálfleik, 19:16, og náði átta marka forskoti þegar um 20 mínútur voru til leiksloka, 26:18.
Aðsópsmiklir að vanda
Ómar Ingi Magnússon og Gísli Þorgeir Kristjánsson leikmenn Magdeburg komu að vanda mikið við sögu í leiknum. Ómar Ingi skoraði 9 mörk og átti þrjár stoðsendingar. Fimm marka sinna skoraði Ómar Ingi af vítapunktinum hvar hann var með fullkomna nýtingu.
Gísli Þorgeir skoraði fjögur mörk og átti fjórar stoðsendingar.
Nikola Bilyk skoraði 34. mark Kiel þegar 27 sekúndur voru til leiksloka að viðstöddum 6.600 áhorfendum í Magdeburger Arena. Uppselt var á leikinn. Daninn Magnus Saugstrup klóraði í bakkann fyrir Magdeburg þegar um 15 sekúndur voru til leiksloka.
Tylltu sér á toppinn
Kiel er efst í deildinni með 22 stig eftir 13 leiki. Hætt er við að dvöl liðsins á toppnum verði skammvinn vegna þess að Füchse Berlin leikur við Lemgo í dag. Berlínarliðið er einu stigi á eftir Kiel. Magdeburg er fimm stigum á eftir Kiel í fjórða sæti en á tvo leiki til góða. Væntanlegir mótherjar Vals á þriðjudagskvöldið, Flensburg, er jafnt Magdeburg að stigum. Flensburg sækir MT Melsungen heim í dag.
Áfram í þriðja sæti
Ýmir Örn Gíslason og samherjar í Rhein-Neckar Löwen sitja áfram í þriðja sæti þýsku 1. deildar karla í handknattleik eftir sigur á Erlangen í Nürnberg í gærkvöld, 33:30. Ýmir Örn skoraði eitt mark og var að vanda aðsópsmikill við varnarleikinn.
Erlangen var tveimur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 18:16. Ólafur Stefánsson er aðstoðarþjálfari Erlangen.
Arnór Þór skoraði þrisvar
Arnór Þór Gunnarsson skoraði þrjú mörk, ekkert þeirra úr vítaköstum, í gærkvöld í sigurleik Bergischer HC á botnliði ASV Hamm-Westfalen, 31:27, í Westpress Arena, heimavelli Hammingja.
Bergischer HC færðist upp í 11. sæti með sigrinum, stigi fyrir ofan Leipzig sem sækir Stuttgart heim í dag.