Sandra Erlingsdóttir og félagar í EHF Aalborg sýndu styrk sinn í síðari hálfleik í dag þegar þær mættu Gudme HK frá Fjóni á útivelli í dönsku B-deildinni í handknattleik. Eftir jafnan fyrri hálfleik lék enginn vafi á þegar kom fram í síðari hálfleik hvort liðið væri sterkara. Álaborgarliðið vann með sjö marka mun, 30:23.
Með sigrinum treysti EH Aalborg stöðu sína í öðru sæti deildarinnar. Það hefur 32 stig þegar 20 leikjum er lokið. Tvær umferðir eru eftir. Ringköbing er efst með 35 stig. SönderjyskE er í þriðja sæti með 28 stig. Hadsten, Bjerringbro, Ringsted eru skammt á eftir og eiga enn möguleika á að tryggja sér þriðja sætið. Efsta liðið fer beint upp en liðin í öðru og þriðja sæti fara í umspil um keppnisrétt í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.
Sandra fór rólega af stað í leiknum í dag og skoraði eitt mark úr vítakasti í fyrri hálfleik. Hún bætti þremur mörkum við í síðari hálfleik. Ekkert þeirra var úr vítakasti. Að vanda stjórnaði Sandra sóknarleik EH Aalborg af röggsemi.
EH Aalborg tekur á móti Hadsten í næst síðustu umferð deildarinnar á fimmtudaginn og sækir topplið Ringköbing heim í lokaumferðinni 10. apríl.