„Við tökum einn leik fyrir í einu og sjáum til hvernig við förum að stað. Fyrst og fremst verður gaman að byrja,“ segir Díana Guðjónsdóttir þjálfari kvennaliðs Hauka í samtali við handbolta.is en Haukar opna keppni í Olísdeildinni með viðureign gegn nýliðum Selfoss í fyrri hluta handboltaveislu á Ásvöllum sem hefst í kvöld klukkan 18.
Til eru þeir sem telja Hauka vera það lið sem á góðum degi geti velgt margföldum meisturum síðasta tímabils, Val, undir uggum en liðin mættust í úrslitum Íslandsmótsins í vor.
Öflugur liðsauki
Haukar fengu liðsauka í Rut Arnfjörð Jónsdóttur og Söru Sif Helgadóttur, tveimur landsliðskonum. Díana segir komu þeirra auka breiddina í leikmannahópnum.
„Rut er okkar besta handboltakona og kemur með mikla reynslu inn í hópinn. Hún fær þann tíma sem þörf verður á til að koma til baka eftir að hafa ekki leikið á síðasta tímabili,“ sagði Díana sem heldur spilunum þétt að sér.
„Rut kemur inn með nýja vídd á æfingar enda afar reynslumikil. Hún kann að segja til sem er kærkomið inn í okkar hóp þar sem við höfum marga unga leikmenn.
Sara markvörður hefur komið mjög sterkt inn í hópinn. Ég er viss um að það verður gaman að fylgjast með henni í vetur.“
Of snemmt að tala um
Díana vill sem minnst tala um það hvort Haukar eigi eftir að veita Val alvarlega keppni á leiktíðinni sem hefst í kvöld enda á mikið vatn eftir að renna til sjávar á næstu mánuðum áður Íslands- eða bikarmeistarar verða krýndir.
Haukar tóku þátt í æfingamóti í Skövde í Svíþjóð í fyrri hluta ágúst auk þess sem strengirnir hafa verið stilltir með æfingaleikjum hér heima. „Ytra fengum við góðan tíma saman sem var kærkomið til þess að hrista hópinn saman. Við erum á leiðinni í Evrópukeppni eftir meira en mánuð. Það er nóg framundan hjá okkur,“ segir Díana Guðjónsdóttir þjálfari Hauka.
Lengra myndskeiðsviðtal er við Díönu efst í fréttinni.
Sjá einnig: Leikjadagskrá Olísdeilda.
Konur – helstu félagaskipti 2024