- Auglýsing -
- Auglýsing -

Tólf marka sigur í Tallin

Íslenska landsliðið í handknattleik karla.Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Íslenska landsliðið í handknattleik átti ekki nokkrum vandræðum með að vinna stórsigur á landsliði Eistlands, 37:25, í Kalevi Spordihall í Tallin í kvöld í annarri umferð 3. riðils undankeppni Evrópumóts karla. Að loknum fyrri hálfleik var munurinn sjö mörk, 20:13.


Ísland hefur þar með fjögur stig eftir tvo leiki í undankeppninni og 27 mörk í plús. Næstu leikir í undankeppninni fara fram í fyrri hluta mars.


Brösuglega gekk hjá íslenska liðinu á fyrstu tíu mínútunum og var staðan jöfn, 6:6. Eftir það náðu íslensku piltarnir að reka af sér slyðruorðið og keyra upp hraðann í sókninni. Langar og hægar sóknir Eistlendinga voru lítt til skemmtunar fallnar og gerðu varnarmönnum íslenska liðsins lífið leitt sem smitaði sér til markvarðanna sem náðu sér lítt á strik.


Forskot Íslands var sjö mörk eftir fyrri hálfleik. Snemma í síðari hálfleik var munurinn kominn upp í níu mörk. Eftir það var aldrei spurning um að sigur Íslands yrði öruggur. Aðeins hversu stór hann hann yrði.


Sóknarleikurinn gekk vel lengst af og að vanda voru hraðaupphlaupin til prýði. Björgvin Páll náði sér betur á strik í markinu í síðari hálfleik. Varnarleikurinn var upp og ofan enda heldur óspennandi að standa lengi í vörn gegn andstæðingi sem leggur sig í líma við að hanga á boltanum eins og hundur á roði.


Munurinn hefði hæglega getað verið meiri þegar upp var staðið en fyrir mestu var að fá stigin tvö.


Bjarki Már Elísson var frábær í leiknum. Skoraði 11 mörk í 13 skotum.


Mörk Íslands: Bjarki Már Elísson 11, Sigvaldi Björn Guðjónsson 6, Viggó Kristjánsson 4, Kristján Örn Kristjánsson, Donni, 3, Teitur Örn Einarsson 3, Elvar Örn Jónsson 3, Gísli Þorgeir Kristjánsson 2, Elliði Snær Viðarsson 2, Arnar Freyr Arnarsson 1, Hákon Daði Styrmisson 1, Björgvin Páll Gústavsson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 9, 32,1% – Ágúst Elí Björgvinsson 2/1, 25%.
Mörk Eistlands: Karl Toom 8, Mihkel Löpp 5, Markus Viitkar 2, Henri Sillaste 2, Andris Celmins 2, Kaspar Lees 2, Ott Varik 2, Alfred Timmo 1, David Mamporia 1.
Varin skot: Armis Priskus 4, 19% – Rasmus Ots 4, 18,1%.

Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -