Fram tapaði fyrsta leik sínum í riðlakeppni Evrópudeildar karla í handknattleik í kvöld, 38:26, í Lambhagahöllinni í Úlfarsárdal. Staðan í hálfleik var 16:11. Eftir góðan leik í 45 mínútur varð tapið í stærra lagi hjá Fram sem tapaði niður þræðinum og missti portúgalska liðið óþarflega langt framúr. Næsti leikur liðsins verður eftir viku gegn Elverum, einnig í Lambhagahöllinni.
Portúgalska liðið tók völdin snemma í fyrri hálfleik og virtist um skeið ætla að gera hreinleg út um viðureignina. Munurinn var fimm mörk um miðjan hálfleik, 13:8. Framarar lögðu ekki árar í bát. Varnarleikur liðsins var góður og þótt nokkuð hafi vantað upp á í uppstilltum sóknarleik. Framliðið var óheppið að vera fimm mörkum undir í hálfleik. Munurinn hefði sannarlega getað verið þrjú til fjögur mörk.
Á köflum lékum við mjög vel, bæði í vörn og sókn
Ætluðu ekki að brenna sig á sama soðinu
Áfram börðust Framarar í síðari hálfleik og minnkuðu muninn í þrjú til fjögur mörk þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Nær komust leikmenn Fram ekki. Leikmenn Porto höfðu greinilega lært af reynslu síðasta árs þegar þeir misstu vænlegt forskot niður í jafntefli við Val í upphafsleik riðlakeppninnar, einnig hér á landi. Auk þess þá fjölgaði sóknarmistökum Fram þegar á leið og munurinn á atvinnumannaliði og löskuðu áhugamannaliði skýrðist betur.
Frammistaða Framarar var góð í 45 mínútur, ekki síst þegar tekið er mið af þeim afföllum sem orðið hafa á leikmannahópnum, en einnig þegar litið er til spilamennsku liðsins í allra síðustu leikjum. Hún gaf ekki ástæðu til bjartsýni.
Skarð var fyrir skildi að Rui Silva leikstjórnandi Porto og landsliðsins tognaði á nára eftir um 10 mínútna leik og kom ekkert við sögu eftir það.
Þorsteinn Leó skoraði fjögur mörk
Þorsteinn Leó Gunnarsson hóf leikinn í sókn Porto en var kallaður af leikvelli eftir um 10 mínútur. Hann mætti galvaskur til leiks þegar á leið síðari hálfleik og gerði Fram-liðinu gramt í geði með þrumuskotum sínum. Einnig var honum ranglega vikið af leikvelli í síðari hálfleik þegar finnsku dómararnir fóru mannavillt á miðvörðum.
Við vorum seinir í gang – allt í lagi leikur hjá mér
Góð mæting
Vel var mætt í Lambhagahöllina og góð stemning ríkti. Þó var sannarlega pláss fyrir fleiri áhorfendur. Næsti leikur Fram í keppninni verður í Lambhagahöllinni eftir viku gegn Elverum.
Mörk Fram: Ívar Logi Styrmisson 7, Theodór Sigurðsson 6, Rúnar Kárason 4, Dagur Fannar Möller 3, Erlendur Guðmundsson 2, Þorsteinn Gauti Hjálmarsson 1, Eiður Rafn Valsson 1, Kjartan Þór Júlíusson 1, Arnar Snær Magnússon 1.
Varin skot: Breki Hrafn Árnason 5, 18% – Arnór Máni Daðason 1, 6%.
Mörk FC Porto: Antonio Martínez Llamazares 7, Daymaro Salina 5, José Ferreira 5, Þorsteinn Leó Gunnarsson 4, Vasco Costa 4, Pol Valera Rovira 3, Linus Niclas Persson 3, Jesus Hurtado Vergara 2, Richardo Brandão 2, Rui Silva 1, Mamadou Lamine Diocou Soumaré 1, Pedro Oliveira 1.
Varin skot: Sebastian Abrahamsson 9, 39,% – Diogo Rêma Marques 5, 29%.
Evrópudeild karla “25 – riðlakeppni 32-liða – 1. umferð, úrslit