„Töpin verða ekki sárari,“ sagði Perla Ruth Albertsdóttir landsliðskona og leikmaður Selfoss í samtali við handbolta.is í gærkvöld eftir að Selfoss tapaði fyrir Stjörnunni, 26:25, í framlengdum undanúrslitaleik í Powerade-bikar kvenna í handknattleik. Þetta var fyrsta tap Selfossliðsins á keppnistímabilinu í deild og bikar.
Gífurlegt áfall fyrir okkur
„Fyrsti áfallið var að missa Kötlu út alvarlega meidda eftir 20 mínútna leik. Það var gífurlegt áfall fyrir okkur. Katla er helsta sóknarkona okkar og markahæst. Við vorum svo sannarlega ekki búnar að búa okkur undir að leika án Kötlu í nærri því heilan leik og framlengingu þrátt fyrir góðan undirbúning,“ sagði Perla Ruth og bætti við að markmið Selfossliðsins hafi verið háleitt.
Ætluðum að vinna bikarinn
„Við ætluðum okkur að verða bikarmeistarar og fara taplausar í gegnum tímabilið. Það gekk því miður ekki eftir. Tapið mun hinsvegar fleyta okkur inn í næsta tímabil og gera okkur ennþá staðráðnari í að gera þá enn betur. Þetta er eins svekkjandi og það helst getur orðið,“ sagði Perla.
Uppiskroppa með vopn
„Þegar á leið varð leikurinn okkur mjög erfiður. Á köflum náðum við upp vörninni og sókninni en svo vorum við ekki með fleiri vopn í okkar vopnbúri undir lok leiksins. Auk þess vorum við ósáttar við eitt og annað sem gerðist í leiknum. En því miður þá fór þetta svona.
Stórkostlegir stuðingsmenn
Við hefðum svo sannarlega viljað vinna og lögðum allt í sölurnar til þess að endurgjalda okkar stórkostlegu stuðningsmönnum, þeim bestu á landinu, sem fjölmenntu í Höllina og stóðu þétt við bakið á okkur allan leikinn,“ sagði Perla María Albertsdóttir landsliðskona og leikmaður Selfoss í samtali við handbolta.is í Laugardalshöll á ellefta tímanum í gærkvöld.
Tengt efni:
Katla María meiddist alvarlega
Stjarnan í úrslit eftir háspennuleik
Leið alls ekki vel fyrr en flautað var til leiksloka