Í gær undirrituðu forsvarsmenn handknattleikssambanda Færeyja, Grænlands og Íslands samstarfssamning sem snýr að nánara samstarfi um framþróun handknattleiks í löndunum þremur. M.a. snýr samningurinn að vináttulandsleikjum, æfingabúðum, dómara- og þjálfaramenntun auk samvinnu um þróun innviða í grænlenskum handknattleik.
Eitt af því fyrsta sem er áþreifanlegt í samningnum eru æfingabúðir sem kvennalandslið Grænlands er í hér á landi þessa dagana. Síðar í þessu mánuði kemur karlalandslið Grænlands til Íslands og verður við æfingar í viku og tekur þátt í tveimur leikjum við 20 ára landslið Íslands.
Vináttuleikur í kvöld
Kvennalandslið Grænlands leikur í kvöld vináttuleik við 20 ára landslið Íslands í Safamýri. Leikurinn hefst klukkan 19.30. Síðari viðureignin verður á laugardaginn. Leikirnir verða sendir út á Handboltapassanum.
Mörg undanfarin ár hefur verið gott samstarf á milli Íslands og Færeyja m.a. með vináttulandsleikjum kvennalandsliða og yngri landsliða karla og kvenna. Samningurinn treystir það samstarf um leið og Grænlendingar bætast í hópinn.