Stórskyttan unga, Tryggvi Garðar Jónsson, hefur kvatt Val og skrifað undir tveggja ára samning við Fram. Tryggvi Garðar er tvítugur að aldri og hefur leikið með Val upp alla yngri flokka.
„Hann passar vel inn í ungt og ferskt lið Fram. Félagið bindur miklar vonir við að hann blómstri ásamt liðinu á komandi tímabilum,“ segir í tilkynningu handknattleiksdeildar Fram.
„Mjög gott fyrir okkur að fá leikmann eins og Tryggva til liðs við okkur. Ég hlakka til að vinna með honum enda hefur hann lengi vel verið einn efnilegasti handknattleiksmaður landsins. Að auki mun hann fitta vel inn í afreksmannaumhverfið hjá okkur í Fram þar sem hann mun fá að vaxa og dafna sem persóna og leikmaður,“ er haft eftir Einari Jónssyni þjálfara í fyrrgreindri tilkynningu.
Önnur stórskyttan
Tryggvi Garðar er önnur stórskyttan sem Fram krækir í fyrir næsta keppnistímabil. Fyrir nokkru skrifaði félagið undir samning við Rúnar Kárason um að koma til liðs félagsins í sumar frá ÍBV.