- Auglýsing -
- Auglýsing -

Tryggvi og félagar í 8-liða úrslit Evrópudeildarinnar

Tryggvi Þórisson leikmaður IK Sävehof. Mynd/Guðmundur Svansson
- Auglýsing -

Tryggvi Þórisson og félagar í IK Sävehof unnu það afrek í kvöld að tryggja sér sæti í 8-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í handknattleik karla. Sävehof vann Hannover-Burgdorf með níu marka mun með frábærum leik, 34:25, í Partille Arena, heimavelli sínum.

Þetta mun vera aðeins í annað sinn sem sænskt handknattleikslið í karlaflokki vinnur þýskt félagslið í átta liða úrslitum í Evrópukeppni félagsliða.

Þýska liðið vann heimaleikinn fyrir viku með fjögurra marka mun, 34:30. Það dugði skammt í Partille í kvöld þegar sænsku deildarmeistararnir voru í ham. Þeir unnu samanlagt, 64:59. Sävehof var með fjögurra marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 18:14.

Tryggvi skoraði ekki mark fyrir Sävehof.

Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf.

Óli lét til sín taka

Færeyingurinn efnilegi, Óli Mittún, skoraði tvö mörk fyrir Sävehof en átti níu stoðsendingar. Felix Möller og Gustaf Wedberg skoruðu sjö mörk hvor. Uladzislau Kulesh skoraði sex mörk og var markahæstur hjá Hannover-Burdorf.

Dinamo bætist einnig í hópinn

Rúmensku meistararnir Dinamo Búkarest unnu sér einnig sæti í átta liða úrslit Evrópudeildarinnar með öðrum sigri á danska liðinu Bjerringbro/Silkeborg, 27:24, og samanlagt, 64:58.

Fyrstu umferð útsláttarkeppninnar lýkur í kvöld með tveimur leikjum. Füchse Berlin og Kadetten Schaffhausen eigast við í Berlin og Rhein-Neckar Löwen og RK Nexe mætast í Mannheim.

Sporting, Nantes, Skjern og Flensburg eru þegar komin í átta liða úrslit. Liðin unnu sína riðla í 16-liða úrslitum og hlupu þar með yfir fyrstu umferð útsláttarkeppninnar.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -