Handknattleiksmaðurinn Tumi Steinn Rúnarsson hefur ekkert leikið með þýska 2. deildarliðinu HSC 2000 Coburg það sem af er keppnistímabilinu. Hann meiddist í æfingaferð liðsins síðla í ágúst. Í fyrstu var talið að um væri að ræða tognun í nára. Talsvert síðar kom í ljós að Tumi Steinn var kviðslitinn.
Tumi Steinn fór í vel heppnaða aðgerð fyrir þremur vikum vegna kviðslitsins. Til stendur að hann hefji léttar æfingar í vikunni. Hvenær Tumi Steinn mætir út á völlinn skýrist þegar frá líður.
Coburg situr í níunda sæti 2. deildar með níu stig að loknum átta leikjum. Liðið hefur unnið fjóra leiki, gert eitt jafntefli og tapað þremur.
Tumi Steinn gekk til liðs við HSC 2000 Coburg í janúar á þessu ári frá Íslandsmeisturum Vals Hann var Íslands- og bikarmeistari með liðinu árið 2021.