Bosníski landsliðsmaðurinn, Senjamin Burić, segir í samtali við Sarajevo Times að ef bosníska landsliðið ætli að eiga í fullu tré við íslenska landsliðið verði það að halda aftur af hröðum leik og hraðaupphlaupum íslenska landsliðsins.
Landslið Bosníu og Íslands mætast í Sarajevó klukkan 18 í dag í fimmtu og næst síðustu umferð undankeppni EM 2026.
Bosníumenn verða að leggja allt í sölurnar í leiknum og ná sigri til þess að eiga einhverja möguleika á að ná öðru sæti riðilsins og þar með öruggu sæti í lokakeppninni sem fram fer í janúar á næsta ári.
„Við verðum að vera 110 prósent klárir í erfiðan leik. Ég vænti erfiðs en góðs leiks frá báðum liðum,“ segir Burić í fyrrgreindum viðtali við Sarajevo Times.

Leikurinn skiptir íslenska landsliðið ekki síður máli en það bosníska vegna þess að með sigri tryggir íslenska landsliðið sér efsta sæti riðilsins og þar með væntanlega stöðu í efsta styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðla lokakeppninnar í Herning í Danmörku fimmtudaginn 15. maí.
Markvörðurinn sterki ekki með
Skarð er fyrir skildi í landsliði Bosníu í kvöld. Markvörðurinn sterki og tvíburabróðir Senjamin sem vitnað er í að ofan, Benjamin Burić, er meiddur og tekur ekki þátt í leiknum.
Senjamin Burić treystir á öflugan stuðning í hinni gömlu keppnishöll, Mirza Delibašić Hall, í Sarajevó. Hann segir leikmenn bosníska landsliðsins leika best þegar þeir eru undir pressu.

A-landslið karla – fréttasíða.
Undankeppni EM karla “26: úrslit leikja og staðan