Hjörtur Ingi Halldórsson og markvörðurinn Sigurjón Guðmundsson hafa skrifað undir nýja samninga við handknattleikslið HK. Nýr samningu Hjartar Inga er til tveggja ára. Sigurjón gekk frá þriggja ára samningi við Kópavogsliðið sem leikið hefur í Olísdeildinni á leiktíðinni.
Hjörtur kom til HK frá Haukum árið 2020. Hann var markahæsti leikmaður liðsins á síðasta tímabili þegar HK vann Grill66-deildina. Nú um stundir er Hjörtur Ingi næst markahæsti leikmaður HK í Olísdeildinni með 74 mörk.
Algjör lykilleikmaður
„Hjörtur er enn einn leikmaðurinn sem ákveðið hefur að framlengja hjá HK sem undirstrikar svo sannarlega að menn hafi trú á framtíðinni í Kórnum. Við lítum á Hjört sem algjöran lykilleikmann í framgagni liðsins í náinni framtíð og okkur því mikil ánægja að hafa hann áfram innan okkar raða,“ segir m.a. í tilkynningu frá handknattleiksdeild HK.
Sigurjón markvörður verður 25 ára á árinu. Hann hefur leikið með HK allan sinn feril og var leikmaður ársins á síðasta keppnistímabili auk þess að vekja athygli á yfirstandandi leiktíð. Samkvæmt tölfræði HBStatz er Sigurjón með 30,7% hlutfallsmarkvörslu það sem af er tímabilsins.
„Sigurjón hefur alla burði til þess að verða einn besti markmaður deildarinnar á komandi árum og okkur því mikil ánægja að Sigurjón skuli hafa ákveðið að halda kyrru fyrir og veðja á þá vegferð sem félagið er á,“ segir ennfremur í tilkynningu frá handknattleiksdeild HK sem barst til handbolta.is í morgun.
Fyrr á keppnistímabilinu hafa m.a. Bjarki Finnbogason, Pálmi Fannar Sigurðsson og Róbert Örn Karlsson, markvörður, skrifað undir lengri samninga við HK.