Íslendingaliðin Bergsicher HC og Stuttgart unnu í kvöld leiki sína í annarri umferð þýsku 1. deildinnar í handknattleik og voru landsliðsmennirnir Arnór Þór Gunnarsson og Viggó Kristjánsson aðsópsmiklir í leikjum liða sinna.
Arnór Þór var markahæstur ásamt tveimur öðrum hjá Bergsicher HC með fimm mörk, þar af tvö úr vítakasti í 29:25, i sigri liðsins á Erlangen á heimavelli. Bergischer, sem er komið með fjögur stig eftir leikina tvo, var með eins marks forystu að loknum fyrri hálfeik, 15:14.
Ragnar Jóhannsson var í leikmannahópi Bergischer HC í dag en skoraði ekki mark.
Viggó Kristjánsson skoraði 7 mörk, þar af eitt af vítapunktinum, í fyrsta sigri Stuttgart á keppnistímabilinu. Stuttgart vann Tusem Essen örugglega, 31:23, á heimavelli eftir að hafa verið sex mörkum yfir eftir fyrri hálfleik, 18:12. Elvar Ásgeirsson komst ekki á blað yfir þá sem skoruðu fyrir Stuttgart að þessu sinni.
Tveir leikir til viðbótar voru í deildinni í kvöld. Wetzlar vann GWD Minden, 29:24, í Minden og Flensburg lagði Nordhorn, 33:26, í Flensborg.