Fjórir leikmenn landsliðsins í handknattleik eru veikir og óvíst um frekari þátttöku þeirra á Evrópumótinu í handknattleik. Kristján Örn Kristjánsson, Donni, og Óðinn Þór Ríkharðsson bættust á veikindalistann í morgun. Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari sagði frá þessu í morgun á fundi með blaðamönnum á hóteli landsliðsins í Köln. Hann útilokar ekki að kalla inn fleiri leikmenn til við landsliðið í dag fyrir viðureignina gegn Austurríki á morgun.
Fyrir voru Ómar Ingi Magnússon og Janus Daði Smárason veikir. Þeir vöknuðu veikir í fyrradag. Horfur á þátttöku þeirra í leikjunum við Austurríki á morgun eru ekki góðar um leið og óvíst er hvernig heilsu Óðins og Donna framvindur í dag.
Til viðbótar fékk Gísli Þorgeir beinmar á aðra ristina í leiknum við Króata í gær og verður ekki meira með á mótinu.
„Það getur farið svo að ég kalli inn fleiri menn í hópinn í dag,“ sagði Snorri Steinn landsliðsþjálfari við handbolta.is í morgun.
Hann hefur þegar beðið Teit Örn Einarsson að bætast í hópinn. Teitur Örn kemur til Kölnar eftir hádegið í gær frá Flensburg þar sem hann býr.
Læknir og tveir sjúkraþjálfarar eru með landsliðinu úti í Þýskalandi.
Veikindi herja á leikmenn fleiri liða á Evrópumótinu í handknattleik í Þýskalandi.
Teitur Örn kallaður til Kölnar