Tveir sannkallaðir stórleikir verða í átta liða úrslitum þýsku bikarkeppninnar í handknattleik en dregið var í gær eftir að Füchse Berlin hafði tryggt sér síðasta sætið í átta liða úrslitum.
Tvö efstu lið þýsku 1. deildarinnar, Evrópumeistarar SC Magdeburg og Flensburg, drógust saman. Þýskalandsmeistarar Füchse Berlin mæta bikarmeisturum síðasta tímabils, THW Kiel.
Bergischer HC, sem Arnór Þór Gunnarsson þjálfar, leikur gegn MT Melsungen en Arnar Freyr Arnarsson og Reynir Þór Stefánsson eru leikmenn liðsins.
Fjórði leikur átta liða úrslita verður á milli Leipzig, sem Blær Hinriksson leikur með, og Lemgo sem hefur komið einna mest á óvart í þýsku deildinni í vetur. Lemgo lagði Gummersbach í 16-liða úrslitum bikarkeppninnar, 30:27.
Leikir átta liða úrslita fara fram 17. og 18. desember:
Füchse Berlin – THW Kiel.
SC Magdeburg – SG Flensburg-Handewitt.
Bergischer HC – MT Melsungen.
SC DHfK Leipzig – TBV Lemgo Lippe.




