Danir fóru með sigur úr býtum á fjögurra þjóða móti í handknattleik karla sem lauk í Þrándheimi í dag. Danska lansliðið vann stórsigur á Færeyingum, 39:24, í síðustu umferð mótsins. Norðmenn fengu á baukinn er þeir töpuðu illa fyrir Hollendingum, 37:33, eftir jafna stöðu að loknum fyrri hálfleik, 15:15. Holland hafnaði í öðru sæti með tvo vinninga. Norðmenn hlutu einn en Færeyingar engan.
Danir unnu allar þrjár viðureignir sínar á mótinu með samanlagt 36 marka mun.
Viðvörunarbjöllur hringdu
Varnarleikur Norðmanna var í molum í síðari hálfleik í viðureigninni við Hollendinga. Ljóst er eftir mótið að varnarleikurinn getur orðið höfuðverkur norska landsliðsins á EM. Alltént hringdu viðvörunarbjöllur eftir viðureignirnar við Danmörku og Holland á þessu móti.
Tobias Grøndahl var markahæstur í norska landsliðnu í dag með 11 mörk, sjö þeirra úr vítaköstum. Sander Sagosen, sem hvíldi í gær gegn Færeyingum, var næst markahæstur með sex mörk í 14 skotum.
Niels Versteijnen var atkvæðamestur í jöfnu liði Hollendinga með 10 mörk. Luc Steins skoraði þrjú mörk en gaf átta stoðsendingar.
Gidsel fór á kostum gegn Færeyingum
Danir voru búnir að gera út um leikinn við Færeyinga eftir 30 mínútur. Þeir voru níu mörkum yfir, 22:13, í hálfleik. Færeyska liðið komst aldrei á skrið, hvorki í vörn né sókn. Lokatölur 39:24.
Mathias Gidsel var frábær með 11 mörk og átta stoðsendingar í danska landsliðinu. Thomas Arnoldsen skoraði sex mörk. Emil Nielsen var allan leikinn í danska markinu og varði 18 skot, 44%.
Hákun West Av Teigum var markahæstur í færeyska landsliðinu með sjö mörk. Línumaðurinn Isak Vedelsbøl skoraði þrisvar. Danska liðið hafði góðar gætur á Óla Mittun og Elias Ellefsen á Skipagøtu, hættulegustu sóknarmönnum Færeyinga.




