Rhein-Neckar Löwen og Flensburg tryggðu sér sæti í átta liða úrslitum bikarkeppninnar í handknattleik karla í Þýskalandi í gærkvöld. Þriðja liðið sem íslenskir landsliðsmenn leika með, Gummersbach, fékk því miður úr leik með tapi á heimavelli fyrir Lemgo, 33:30. Sömu sögu er að segja af því fjórða, Hannover-Burgdorf.
Elliði Snær Viðarsson og Hákon Daði Styrmisson skoruðu tvö mörk hvor fyrir Gummersbach í leiknum. Elliða var að auki vísað af leikvelli í tvígang í tvær mínútur í hvort skiptið.
Fjölmenni í Hannover
Ýmir Örn Gíslason skoraði eitt mark og var einu sinn vísað af leikvelli þegar Rhein-Neckar Löwen vann Hannover-Burgdorf örugglega, 31:25, að viðstöddum 7.820 áhorfendum í ZAG Arena í Hannover. Heiðmar Felixson er aðstoðarþjálfari Hannover-Burgdorf.
Uwe Gensheimer skoraði 10 mörk fyrir Löwen í leiknum. Ungstirnið Juri Knorr hafði sig lítt í frammi í leiknum, skoraði eitt mark og átti þrjár stoðsendingar. Knorr hefur sennilega ekki náð upp fullum kröftum eftir að hafa leikið vel með þýska landsliðinu á HM.
Áfram eftir framlengingu
Teitur Örn Einarsson skoraði ekki mark fyrir Flensburg í eins marks sigri á heimavelli á HSG Wetzlar, 29:28, eftir framlengdan leik. Nærri 4.900 áhorfendur studdu vel við leikmenn Flensburg í leiknum, ekki síst þegar leikmenn voru í kröppum dansi í framlengingu.
Fjórða og síðasta viðureign átta liða úrslita fer fram í dag þegar meistarar SC Magdeburg sækja THW Kiel heim í Barclays Arena í Kiel.