Elvar Örn Jónsson og Arnar Freyr Arnarsson fögnuðu í kvöld sigri með félögum sínum í MT Melsungen á Hannover-Burgdorf, 29:23, á útivelli í toppslag þýsku 1. deildarinnar í handknattleik. Melsungen er þar með áfram jafnt Füchse Berlin í tveimur efstu sætum deildarinnar. Hvort lið hefur 49 stig að loknum 29 af 34 leikjum.
Vonir Hannover-Burgdorf á meistaratitlinum runnu endanlega út í sandinn með tapinu.
Elvar Örn skoraði sex mörk fyrir Melsungen og gaf tvær stoðsendingar. Arnar Freyr kom aðallega við sögu í vörninni og stóð fyrir sínu. Hornamaðurinn Timo Kastening var markahæstur með sjö mörk.

Lukas Stutzke var markahæstur hjá Hannover-Burgdorf. Heiðmar Felixson er sem fyrr aðstoðarþjálfari liðsins.
Hannover-Burgdorf er í fjórða sæti með 43 stig, er stigi fyrir ofan Flensburg og THW Kiel. Magdeburg er í þriðja sæti, einnig með 43 stig en hefur lokið tveimur leikjum færra en liðin þrjú sem að framan er getið.
Aftur næst neðstir
Viggó Kristjánsson og félagar í HC Erlangen eru á nýjan leik komnir í fallsæti í þýsku 1. deildinni. Það átti sér stað þótt þeir léku ekki í kvöld. Bietigheim, sem var í næst neðsta sæti, færðist upp um eitt sæti með naumum sigri á Ými Erni Gíslasyni og samherjum í Göppingen, 31:30, í slag liðanna í suðausturhluta Þýskalands.
Enn verra er fyrir Viggó og félaga sú staðreynd að þeir eiga aðeins fjóra leiki eftir til að bjarga sér frá falli. Bietigheim á eftir að leika sex sinnum.
Ýmir Örn skoraði tvö mörk fyrir Göppingen og var einu sinni vikið af leikvelli. Marcel Schiller og Josip Sarac skoruðu sjö mörk hvor fyrir Göppingen. Jonathan Fischer skoraði tíu sinnum fyrir Bietigheim.
Staðan í þýsku 1. deildinni: