Annað sætið í B-deild Evrópumótsins í gær tryggði U17 ára landsliði Íslands sæti í undankeppni EM2023 sem fram fer 22. til 28. nóvember. Um verður að ræða mót sem fimm landslið taka þátt í og keppa um einn farseðil í lokakeppni EM 17 ára landsliða árið 2023.
Auk íslenska landsliðsins tekur serbneska landsliðið þátt en það hafnaði í öðru sæti í hinum riðli B-deildar EM sem lauk í Tblishi í Georgíu. Serbía tapaði fyrir hollenska landsliðinu í úrslitaleik, 25:19.
Til viðbótar við landslið Íslands og Serbíu verða landslið Austurríkis, Slóvakíu og Slóveníu með í keppninni um EM-sætið í nóvemberlok. Austurríki, Slóvakía og Slóvenía voru í þremur neðstu sætum á Evrópumeistaramóti U17 ára landsliða kvenna sem lauk einnig í gær með sigri Ungverja.
Ungverjar unnu þar með bæði U19 og U17 ára Evrópumót kvenna í sumar.
Fyrirkomulag þessarar keppni verður nánar kynnt í vikunni um leið og þátttökuþjóðirnar fimm geta sóst eftir að vera gestgjafi keppninnar.
Sigurliðin tvö í B-deild EM U17 ára landsliða sem lauk í gær, Holland og Norður Makedónía, tryggðu sér sæti í lokakeppni EMU17 ára 2023, á HMU18 ára 2022 og á EMU19 ára 2023. Það var því eftir miklu að slægjast að vinna B-deildirnar sem íslenska landsliðið var hársbreidd frá að gera.