„Við fórum á fullt í morgun að hefja undirbúning fyrir leikinn við Hvít-Rússa á morgun. Gærdagurinn fór í endurheimt og undirbúningsvinnu eftir tvo leiki á tveimur dögum,“ segir Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari U17 ára landsliðs kvenna við handbolta.is rétt fyrir hádegið.
Íslenska landsliðið hefur unnið tvo fyrstu leiki sína í B-riðli B-deildar Evrópumótsins í Klaipeda Litháen. Eftir tveggja daga hlé frá leikjum mætir liðið Hvít-Rússum í þriðju umferð á morgun. Hvít Rússar unnu stóran sigur á Lettum í fyrstu umferð en töpuðu fyrir Pólverjum í gær, 28:23. Viðureign Íslands og Hvíta-Rússlands hefst klukkan 12 á morgun að íslenskum tíma. Hægt verður að fylgjast endurgjaldslaust með útsendingu frá leiknum á ehftv.com.
Þurfum að halda uppi hraða
„Hvít-Rússar eru með líkamlega sterka leikmenn. Tvær mjög öflugar hávaxnar skyttur vinstra megin og einnig hefur liðið yfir að ráða mjög góðri örvhentri skyttu. Við verðum að ganga mjög vel út á móti þessum skyttum. Varnarleikur okkar verður að vera mjög fastur. Þess utan verðum við að halda áfram að leika af þeim hraða sem við höfum gert fram til þessa. Grunnurinn er hér eftir sem hingað til að leika mjög góða vörn og keyra síðan fyrstu, aðra og þriðju bylgju hraðauppahlaup,“ segir Ágúst.
Tvennskonar vörn
Hvít-Rússar hafa leikið 6/0 og 5/1 vörn í mótinu fram til þessa. „Við lögðum nokkra áherslu á sókn gegn 5/1 vörn á æfingunni í morgun. Við verðum vonandi vel búin undir fyrir leikinn. Það er ljóst að við verðum að eiga mjög góða leik til þess að leggja hvít-rússneska liðið að velli,“ segir Ágúst.
„Allir leikmenn eru í fínu standi og fullar orku og tilhökkun að takast á við andstæðinginn á morgun. Við ætlum að selja okkur dýrt,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari U17 ára landsliðsins við handbolta.is í morgun.
B-riðill: Tyrkland - Pólland 20:21 Ísland - Lettland 35:23 Ísland - Tyrkland 28:19 Hvíta-Rússland - Lettland 39:21 Pólland - Hvíta-Rússland 28:23 Tyrkland - Lettland 36:20 Staðan: Ísland 4 stig (2 leikir), Pólland 4(2), Hvíta-Rússland 2(2), Tyrkland 2(3), Lettland 0(3).
A-riðill: Kósovó - Spánn 9:39. Finnland - Litáen 30:27. Spánn - Finnland 21:17. Norður Makedónía - Kósovó 33:15. Finnland - Kósovó 45:10. Litáen - Norður Makedónía 15:28. Staðan: Spánn 4 stig (2 leikir), Norður Makedónía 4(2), Finnland 4(3), Litáen 0(2), Kósovó 0(3).