- Auglýsing -
- Auglýsing -

U17ÓÆ: Dramatískt sigurmark – Ísland í 5. sæti

Efri röð f.v.: Gísli Rúnar Guðmundsson flokkstjóri, Stefán Árnason þjálfari, Ágúst Guðmundsson, Jens Bragi Bergþórsson, Daníel Bæring Grétarsson, Max Emil Stenlund, Jökull Helgi Einarsson, Antonie Óskar Pantano, Dagur Árni Heimisson, Aron Daði Stefánsson, Heimir Örn Árnason þjálfari, Unnar Arnarsson sjúkraþjálfari. Neðri röð f.v.: Bernard Kristján Owusu Darkoh, Stefán Magni Hjartarson, Sigurjón Bragi Atlason, Óskar Þórarinsson, Hugi Elmarsson, Jónas Karl Gunnlaugsson, Magnús Dagur Jónatansson. Mynd/Aðsend. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

Dagur Árni Heimisson skoraði sigurmarkið gegn Norðmönnum, 32:31, sem tryggði íslenska landsliðinu, skipað leikmönnum 17 ára og yngri, fimmta sætið í handknattleikskeppni Ólympíuhátíðar Evrópuæskunnar í Maribor í Slóveníu í morgun. Dramatískara gat sigurinn vart orðið. Norska liðið jafnaði metin úr vítakasti þegar sex sekúndur voru eftir, 31:31, og íslenska liðið missti mann af leikvelli með rautt spjald.

Leikhlé

Þjálfarar íslenska liðsins, Heimir Örn Árnason og Stefán Árnason, tóku leikhlé um leið og norska liðið jafnaði metin. Réðu menn ráðum sínum. Að því loknu æddi Dagur Árni fram með boltann og skoraði án þess að sofandi varnarmenn norska liðsins fengju rönd við reist. Virtust þeir búast við allt öðru en árás Akureyringsins.

Unnu fjóra leiki af fimm

Íslenska liðið vann fjóra leiki og tapaði aðeins einni viðureign í mótinu, gegn Þýskalandi, sem leikur til úrslita við Slóveníu í dag. Ísland vann Slóveníu í riðlakeppni mótsins.

Darraðadans í lokin

Ísland var með yfirhöndina í leiknum frá upphafi til enda. Norðmenn komust aldrei yfir. Fyrir utan upphafsmínúturnar þá var staðan ekki jöfn fyrr en í 30:30, mínútu fyrir leikslok.
Talsverður darraðardans var á lokamínútunum.

Íslenska liðið var þremur mörkum yfir, 30:27, þegar fimm mínútur voru til leiksloka. Í kjölfarið fór vítakast forgörðum og ruðningur var dæmdur á íslenska liðið í sókninni á eftir. Norðmenn nýttu tækifærið og söxuðu niður forskotið en komust sem betur fer ekki lengra en það. Sigurjón Bragi Atlason markvörður sá til þess þegar hann varði skot í jafnri stöðu, 30:30, þegar rúm mínúta var eftir

Jens Bragi Bergþórsson kórónaði stórleik sinn með því að skora 31. mark Íslands úr vítakasti, 31:30, þegar 28 sekúndur voru til leiksloka. Magnús Dagur Jónatansson vann vítakastið.

Tvisvar í fimmta sæti

Þetta er annað alþjóðlega mótið í þessum mánuði þar sem fimmta sætið kemur í hlut U17 ára landsliðs Íslands. Hitt mótið var Opna Evrópumótið sem fram fór í Gautaborg í upphafi þessa mánaðar.

Þetta var annar sigur íslenska liðsins á því norska í keppninni. Liðin mættust á mánudaginn í riðlakeppninni. Ísland vann þá með tveggja marka mun, 34:32.

Mörk Íslands: Jens Bragi Bergþórsson 9/1, Stefán Magni Hjartarson 6, Dagur Árni Heimisson 3, Hugi Elmarsson 3, Antoine Óskar Pantano 3, Ágúst Guðmundsson 2, Aron Daði Stefansson 2/2, Jónas Karl Gunnlaugsson 2, Magnús Dagur Jónatansson 2.

Varin skot: Sigurjón Bragi Atlason 9, Óskar Þórarinsson 8.

Uppfært:

Þýskaland vann

Snemma í morgun vann Portúgal lið Svartfjallalands, 37:26, í viðureign um sjöunda sæti keppninnar.

Ungverjaland lagði Króatíu í framlengdri viðureign, 43:42, og hreppti bronsverðlaun.

Loks vann Þýskaland öruggan sigur á Slóveníu í úrslitaleik, 32:25. Þetta var annað árið í röð sem lið þjóðanna mætast í úrslitaleik. Þýskaland vann einnig í fyrra.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -