- Auglýsing -
- Auglýsing -

U18: Allt klárt fyrir fyrstu orrustu á HM

Stúlkurnar í U18 ára landsliðsinu sem leika á HM í Skopje. Fyrsti leikur þeirra verður á morgun við Svía. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

„Ferðalagið gekk vel og allur farangur skilaði sér á leiðarenda. Við vorum komin inn á hótel hér í Skopje rétt eftir miðnætti,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson annar þjálfara U18 ára landsliðs kvenna í handknattleik við handbolta.is eftir fyrstu æfingu liðsins í Vardar-íþróttahöllinni í Skopje, höfuðborg Norður Makedóníu. Fyrsti leikur íslenska landsliðsins á heimsmeistaramótinu verður á morgun gegn Svíum.

Leikir Íslands í A-riðli HM:
30.júlí: Ísland - Svíþjóð, kl. 10.30.
31.júlí: Ísland - Svartfjallaland, kl. 16.20.
2.ágúst: Ísland - Alsír, kl. 10.30.


„Hótel og allur aðbúnaður til fyrirmyndar hér í Skopje. Hitinn er núna 37 gráður og rakinn er mikill,“ sagði Ágúst Þór ennfremur.

Við morgunverðarborðið í morgun. Mynd/HSÍ

Fyrsta æfing er að baki

„Við æfðum í hádeginu í dag í keppnishöllinni hér í Skopje. Allir leikmenn ættu að vera klárir í slaginn á morgun. Aðeins Jóhann Ingi Guðmundsson markmannsþjálfari liðsins varð eftir á Íslandi þar sem hann er að bíða eftir að fá neikvætt úr covid testi. Hann er nú búinn að vera einkennalaus í þó nokkurn tíma og er klár í slaginn. Hann heldur fundi með markmönnum í gegn teams á milli landa,“ sagði Ágúst Þór.

Við upphaf æfingar íslenska liðsins í Vadar-höllinni í Skopje í hádeginu. Mynd/HSÍ

Eftirvænting ríkir í hópnum

Mikil eftirvænting ríkir í íslenska hópnum fyrir þátttökunni á heimsmeistaramótinu. Auk sænska landsliðsins verða landslið Svartfellinga og Alsírbúa andstæðingar íslenska landsliðsins í riðlakeppninni. Leikið verður við Svartfellinga á sunnudag og Alsírbúa á þriðjudaginn. Framhaldið ræðst af úrslitum leikjanna. Tvö efstu lið hvers riðils fara áfram í 16-liða úrslit en tvö þau neðri í keppni um 17. til 32. sætið.


Alls er leikið í átta riðlum á mótinu og eru fjögur lið í hverjum þeirra.

Vaskur hópur stuðningsmanna með í för

Alls slógust um 30 stuðningsmenn með í hópinn, foreldrar og skyldmenni og ljóst að hópurinn mun ekki láta sitt eftir liggja við að hvetja stúlkurnar til dáða.

Léttar æfingar teknar í skugga fyrir utan hótelið í Skopje. Mynd/HSÍ
Riðlaskiptingin á HM.
A-riðill: Svartfjallaland, Svíþjóð, Alsír, Ísland.
B-riðill: Íran, Norður Makedónía, Usbekistan, Senegal.
C-riðill: Danmörk Portúgal, Austurríki, Færeyjar.
D-riðill: Króatía, Kasakstan, Egyptaland, Indland.
E-riðill: Rúmenía, Holland, Gínea, Slóvenía.
F-riðill: Þýskaland, Sviss, Slóvakía, Suður Kórea.
G-riðill: Noregur, Tékkland, Brasilía, Úrúgvæ.
H-riðill: Ungverjaland, Frakkland, Argentína, Spánn.

Beinar útsendingar

Hægt verður að fylgjast með útsendingum frá leikjum íslenska landsliðsins á HM á youtuberás Alþjóða handknattleikssambandsins (IHF – Competitions). Einnig verða textalýsingar frá leikjunum á handbolti.is.


- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -