- Auglýsing -
- Auglýsing -

U18: Einn magnaðasti leikur á þjálfaraferlinum

U18 ára landsliðið í handknattleik kvenna. Mynd/Brynja
- Auglýsing -

„Þetta er bara einn magnaðasti leikur sem ég hef tekið þátt í sem þjálfari. Mikil aksjón og spennan mjög gríðarleg. Varnarleikurinn hjá okkur var stórkostlegur og markvarslan einnig,“ sagði hinn þrautreyndi þjálfari Ágúst Þór Jóhannsson annar af þjálfurum U18 ára landsliðs kvenna í viðtali við handbolta.is eftir jafntefli íslenska liðsins við Svartfellinga, 18:18, í stórkostlegum leik á heimsmeistaramótinu í handknattleik kvenna í Skopje í Norður Makedóníu í dag.


Íslenska landsliðið er þar með komið með þrjú stig af fjórum mögulegum eftir tvo leiki og stendur vel að vígi í keppni um að komast í 16-liða úrslit mótsins. Síðasti leikur riðlakeppninnar verður á þriðjudaginn við Alsírbúa.

Sannarlega til fyrirmyndar

„Spilamennskan, karakterinn og krafturinn er sannarlega til fyrirmyndar. Það má segja að þetta sér bara alveg magnað. Eftir leikina tvo erum við komin með þrjú stig að loknum leikjum við Svía og Svartfellinga. Ef einhver hefði boðið mér þrjú stig fyrirfram fyrir fyrstu leikina tvo þá hefði ég alltaf tekið þau fegins hendi. Ég er gríðarlega ánægður með gæðin og kraftinn í spilmennskunni hjá stelpunum,“ sagði Ágúst Þór sem var nýkominn inn á hótel landsliðsins þegar handbolti.is heyrði í þjálfaranum hljóðið.

Eru alltaf í fremstu röð

„Við megum ekki gleyma því að Svíar og Svartfellingar hafa verið fastagestir á stórmótum yngri landsliða árum saman og ávallt verið í fremstu röð,“ undirstrikaði Ágúst Þór og minnti á íslenska landsliðið hefði verið í fjórða og neðsta styrkleikaflokki þegar dregið var í riðla fyrir mótið enda komst það inn sem varalið á elleftu stundu. Íslensku stúlkurnar hafa hinsvegar sýnt til þessa að þær eiga svo sannarlega heima á þessu móti.

Hefði vilja fleiri hraðaupphlaup

„Við lékum feikilega góða sex núll vörn í dag og einnig um skeið fimm einn vörn sem skilaði líka góðum árangri. Ég hefði gjarnan viljað fá aðeins fleiri hraðaupphlaup út á þennan góða varnarleik. Við vorum stundum aðeins hikandi er við reyndum að keyra í bakið á Svartfellingunum.


Sóknarleikurinn var stirður á köflum, ekki síst eftir að Svartfellingar skiptu yfir í fimm einn vörn í fyrri hálfleik. Í síðari hálfleik gekk þó betur að mínu mati. Því miður þá fórum við illa með mörg mjög góð færi gegn einum af bestu markvörðum mótsins,“ sagði Ágúst Þór sem sér fram á frídag frá leikjum á morgun áður en síðasta viðureignin í riðlakeppninni fer fram á þriðjudaginn fyrir hádegið að íslenskum tíma.

Tekið sinn toll

Leikirnir tveir hafa tekið sinn toll af leikmönnum. Þar af leiðandi verður kærkomið að fá einn frídag til þess að kasta mæðinni og safna upp orku í bankann fyrir leikinn við Alsír sem verður að vinnast til að sæti í 16-liða úrslitum, eða í milliriðlakeppni 16 efstu liðanna, verði í höfn.

Stjórnum eigin örlögum

„Nú notum við tímann fram að næsta leik á þriðjudaginn til þess að njóta þess aðeins að vera hér á mótinu, jafna okkur eftir tvo fyrstu leikina og búa okkur undir viðeignina við Alsír. Lið Alsír er sýnd veiði en ekki gefin og stelpurnar verða að mæta með 100 prósent einbeitingu gegn þeim. Stigið í dag getur verið mjög mikilvægt en fyrst og síðast þá ráðum við eigin örlögum í lokaumferðinn,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson annar af þjálfurum U18 ára landsliðs kvenna í handknattleik í samtali við handbolta.is í kvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -