„Við höfum komið okkur vel fyrir hér í Belgrad. Nýttum daginn í gær til æfinga og undirbúnings fyrir átökin. Það er bara fín stemning í hópnum og allar eru súlkurnar samtaka um að gera sitt allra besta,” sagði Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari U18 ára landsliðs kvenna í samtali við handbolta.is í morgun.
Ágúst Þór er með U18 ára liðinu í Belgrad þar sem það hefur þátttöku í undankeppni Evrópumótsins í dag með leik við Slóvena klukkan 14.30. Eftir það tekur við leikur gegn Slóvökum á morgun á sama tíma og loks viðureign á móti Serbum á fimmtudag. Efsta lið riðilsins tryggir sér sæti í A-keppni Evrópumóts þesa aldursflokks.
Íslenska liðið er að uppistöðu til skipað sömu leikmönnum og voru í U17 ára landsliðinu sem hafnaði í öðru sæti í B-keppni EM sem fram fór í Litáen í sumar.
„Það er mikil spenna og tilhlökkun í hópnum að hefja leik í dag við fínar aðstæður hér í Belgrad. Slóvenar eru með afar öflugt lið en að sama skapi erum við með gott lið og takist okkur að ná upp okkar besta þá er aldrei að vita hvað getur gerst,” sagði Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari U18 ára landsliðsins.
Amelía Ósk Einarsdóttir er tognuð lítillega á læri og verður ekki leikfær í dag. Hún verður engu að síður í hópnum og mun sitja á varamannabekknum í dag, að sögn Ágústs Þórs.
Handbolti.is verður með beina texta- og stöðuppfærslu frá leiknum í dag sem hefst klukkan 14.30. Eins verður hægt að fylgjast með útsendingu frá leiknum á ehftv.com.