Heimir Ríkarðsson annar þjálfara U18 ára landsliðs karla segir að um þessar mundir standi undirbúningur fyrir þátttöku á Evrópumeistaramótinu einna hæst. Mjög góðar æfingavikur eru að baki auk þátttöku á fjögurra liða móti í Lübeck í Þýskalandi. Framundan eru tveir vináttuleikir við færeyska landsliðið í Þórshöfn á laugardag og á sunnudaginn. Færeysku piltarnir taka einnig þátt í Evrópumótinu sem hefst í Podgorica í Svartfjallalandi 4. ágúst og lýkur tíu dögum síðar.
Kærkomnir leikir í Þórshöfn
„Leikirnir við Færeyinga eru afar kærkomnir fyrir okkur. Þeir eru nauðsynleg viðbót í undirbúning okkar,“ sagði Heimir þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans í morgun. „Við æfum þrisvar í Þórshöfn og leikum tvisvar, komum heim eftir helgina og höldum áfram að vinna í okkar málum áður en verslunarmannahelgin rennur í garð. Lokaæfingin hér heima fyrir EM verður mánudaginn 1. ágúst. Við fórum til Svartfjallalands daginn eftir.“
Riðlaskipting EM U18 ára og leikdagar: A-riðill: Þýskaland, Ísland, Ungverjaland, Pólland. B-riðill: Króatía, Portúgal, Ítalía, Svartfjallaland. C-riðill: Slóvenía, Danmörk, Noregur, Serbía. D-riðill: Spánn, Svíþjóð, Frakkland, Færeyjar. 4. ágúst: Ísland - Pólland. 5. ágúst: Ísland - Ungverjaland. 7. ágúst: Ísland - Þýskaland. Efstu tvö lið hvers riðils leika um fyrsta til áttunda sætið. Tvö neðstu lið hvers riðils leika um níunda til sextánda sætið frá 9. til 14. ágúst.
Unndirbúningur hófst í maí
Segja má að æfingar og undirbúningur fyrir EM hafi meira og minna staðið sleitulaust yfir síðan í lok maí. Í byrjun júní var 16 manna hópur valinn til þátttöku á EM 18 ára auk þess sem fimm varamenn æfðu með hópnum. Fimm menningarnir eiga nú sæti í U17 ára landsliðinu sem fer á laugardaginn til keppni á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar í Slóvakíu.
Afar góð liðsheild
Heimir segir piltana hafa lagt hart að sér við æfingar í sumar og séu staðráðnir í að leggja allt í sölurnar þegar komið verði til leiks í Podgorica í ágústbyrjun. „Þetta eru flottir strákar og liðsheildin er góð. Við hlökkum til mótsins enda unnið hörðum höndum að undirbúningi í sumar,“ sagði Heimir og bætti við að e.t.v. vantaði meiri reynslu í hópinn, ef litið væri til svipaðra hóp á síðustu árum.
Covid kom niður á hópnum
„Þessi aldurshópur fór illa út úr covidstoppunum. Öll mót voru felld niður. Þar af leiðandi býr ekki sama reynsla í hópnum eins og stundum áður þegar maður hefur farið á þennan aldursflokk á stórmót. Oft hafa strákarnir verið búnir að ná 15 til 20 leikjum saman en að þessu sinni verða leikirnir innan við tíu,“ sagði Heimir.
Stilltum saman strengina
„Mótið í Þýskalandi var afar mikilvægt fyrir okkur. Þar tókst okkur að stilla saman strengina og það í góðum tíma fyrir EM sem verður til þess að við verðum betur undirbúnir þegar á hólminn verður komið,“ sagði Heimir.
Á fyrrgreindu móti í Lübeck vann íslenska liðið öruggan sigur á Hollandi en tapaði fyrir Noregi og Þýskalandi í hörkuleikjum. „Við sýndum góða takta og vorum inni í öllum leikjum. Viðureignin við Noreg hefði getað farið á hvorn veginn sem var og aðeins var tveggja marka munur á okkur og þýska liðinu þegar upp var staðið.“
Eitt af átta efstu
Markmið íslenska hópsins á EM er skýrt, að vera í hópi átta efstu. Mikilvægt sé að halda Íslandi áfram í efstu sætum. „Dæmin sanna hinsvegar að það er ekki alltaf á vísan róið. Riðillinn sem við verðum í er erfiður. Við getum hinsvegar verið vissir um að strákarnir munu leggja leggja allt í sölurnar,“ sagði Heimir Ríkarðsson annar þjálfari U18 ára landsliðsins í handknattleik karla en honum við hlið er Einar Jónsson þjálfari.
Leikmannahópur: Andrés Marel Sigurðsson, ÍBV. Andri Fannar Elísson, Haukum. Atli Steinn Arnarsson, FH. Birkir Snær Steinsson, Haukum. Breki Hrafn Árnason, Fram. Elmar Erlingsson, ÍBV. Hans Jörgen Ólafsson, Selfossi. Hinrik Hugi Heiðarsson, ÍBV. Ísak Steinsson, Fold HK. Kjartan Þór Júlíusson, Fram. Sæþór Atlason, Selfossi. Sigurður Snær Sigurjónsson, Selfossi. Skarphéðinn Ívar Einarsson, KA. Þorvaldur Örn Þorvaldsson, Val. Viðar Ernir Reimarsson, Þór Ak. Össur Haraldsson, Haukum.