„Það má segja að þetta hafi verið sannkallaður iðnaðarsigur,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari U18 ára landsliðs kvenna í handknattleik þegar handbolti.is náði tali af honum rétt eftir að íslenska liðið hafði unnið Slóvena, 24:21, í fyrsta leik sínum í undankeppni Evrópumótsins í Belgrad í dag.
Sjötíu prósent af leiknum í vörn
„Fimm einn vörnin var mjög góð og með henni tókst okkur að loka fyrir allt flæði í sóknarleik Slóvena og hindra þar með þeirra bestu menn sem eru skytturnar. Um leið þá brutum við mjög mikið á slóvensku sóknarmönnunum enda stóðum við í vörn um sjötíu prósent af leiknum,“ sagði Ágúst Þór sem hafði á tíðum takmarkaða þolinmæði fyrir þeim mikla tíma sem leikmenn Slóvena fengu til þess að sækja að þessu sinni. Það reyndi mjög á einbeitingu varnarmanna íslenska liðsins.
Lokuðum á hraðaupphlaupin
„Varnarleikurinn okkar skilað mörgum hraðaupphlaupum og mörkum. Ég var hinsvegar ekki alveg nógu ánægður með hraðann á köflum í seinni bylgjunni. Að sama skapi þá skutum við vel úr okkar færum. Leikmenn skiluðu sér vel til baka sem varð til þess að okkur tókst að koma að mestu í veg fyrir hraðaupphlaup Slóvena sem er eitt af þeirra helstu vopnum,“ sagði Ágúst Þór sem þegar er farinn að leggja drög að næsta leik íslenska liðsins sem verður á móti Slóvakíu á morgun klukkan 14.30. Slóvakar leika við Serba síðar í dag.
Eigum meira inni
„Tvö góð stig og sannarlega gott að byrja mótið á sigri. Ég er þeirra skoðunar að meira búi í liðinu en það sýndi í dag og þá ekki síst með jafnari frammistöðu. Slóvakar verða erfiðir á morgun, á því leikur enginn vafi. En byrjunin var góð með tveimur stigum,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari U18 ára landsliðs kvenna í handknattleik við handbolta.is.