„Við þurfum að vinna báða leikina í milliriðlinum til þess að komast í undanúrslit. Það er klárlega stefnan,“ sagði Heimir Ríkarðsson, þjálfari U19 ára landsliðs karla í handknattleik í samtali við handbolta.is. Í dag leikur íslenska liðið fyrri leik sinn í milliriðlakeppninni eftir að hafa komist í átta liða úrslit með sigri á Serbum í lokaumferð riðlakeppninnar á sunnudaginn.
Leikið verður við Svía og hefst leikurinn kl. 16.30.
„Við erum afar ánægðir með að vera í hópi átta efstu liða á mótinu. Það hefur svo mikið að segja fyrir framhaldið hjá næsta landsliði okkar í þessum aldursflokki. Við ætlum okkur engu að síður að ná sem lengst. Fyrsti áfanginn er að minnsta kosti í höfn,“ sagði Heimir. Sæti á meðal átta efstu veitir þátttökurétt í lokakeppni EM í þessum aldursflokki. Óstaðfestar heimildir handbolta.is herma að sjö efstu þjóðirnar á EM að þessu sinni tryggi sér farseðilinn á HM hjá þessum aldursflokki.
„Með því að vinna leikinn við Svía þá förum við í úrslitaleik við Spánverja á miðvikudaginn um undanúrslitasæti. Fjögur stig eiga að duga okkur áfram í undanúrslit. Hinsvegar hafa Svíar og Spánverjar á að skipa mjög sterkum liðum svo ljóst er að við verðum að leika mjög vel til þess að fara í gegnum þessa tvo leiki,“ sagði Heimir.
Leikurinn við Svía í dag hefst klukkan 16.30 og verður hægt að fylgjast með endurgjaldslausri útsendingu á ehftv.com. „Við verðum sérstaklega að leika góða vörn gegn Svíum til þess að eiga möguleika gegn þeim. Þetta verða erfiðir leikir en það er alltaf möguleiki,“ sagði Heimir ennfremur.
Markahæsti leikmaður Evrópukeppninnar í Króatíu er Svíinn Elliot Stenmalm. Hann hefur skoraði 39 mörk í þremur leikjum og hefur vakið mikla athygli fyrir vikið. Stenmalm er ekki aðeins öflugur sóknarmaður heldur hinn prýðilegasti varnarmaður einnig. Hann framlengdi nýverið samning sinn við Redbergslids IK til ársins 2024. „Stenmalm er rosalega öflugur og mikil skytta,“ sagði Heimir sem hefur fylgst náið með kappanum í undirbúningi fyrir leikinn í dag. Einnig segir Heimir að sænska liðið hafi á að skipa afar góðum línumanni sem getur verið erfitt að eiga við.
Arnór Ísak Haddsson meiddist á hendi í leiknum við Serba að sögn Heimis þjálfara. Einar Bragi Aðalsteinsson er meiddur á mjöðm. Andri Már Rúnarsson finnur til eymsla í ökkla. „Hvað sem þessu líður þá eru allir klárir í leikinn við Svía. Menn láta ekkert stöðva sig,“ sagði Heimir við handbolta.is.
Staðan í riðlunum:
Liðin tóku með sér stig í innbyrðis leikjum í riðlakeppninni. Slóvenía hefur þess vegna tvö stig, Svíþjóð eitt, Spánn eitt og Ísland ekkert.
Í hinum milliriðli átta liða úrslita byrja Króatar með tvö stig, Danir eitt, Þjóðverjar eitt, Portúgal ekkert. Arnór Atlason er þjálfari danska landsliðsins.
Leikir í milliriðli eitt. Þriðjudaginn 17.8: Kl. 16.30 Ísland – Svíþjóð. Kl. 18.30 Slóvenía – Spánn. Miðvikudaginn 18.8: Kl. 16.30 Svíþjóð – Slóvenía. Kl. 18.30 Ísland – Spánn. Alla leiki EM 19 ára landsliða er hægt að sjá á ehftv.com.