- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

U19: Sigur sem skiptir okkur öllu máli

Margir af þessum piltum eru í U20 ára hópnum sem valinn var. Mynd/EHF Kolektiff Images
- Auglýsing -

Hljóðið var léttara í Heimi Ríkarðssyni þjálfara U19 ára landsliðsins í handknattleik karla í dag en í gær þegar handbolti.is sló á þráðinn til Heimis eftir 13 marka sigur íslenska landsliðsins, 30:17, á ítalska landsliðinu í annarri umferð riðlakeppni Evrópumótsins í Varazdin í Króatíu í dag.

Heimir Ríkarðsson, þjálfari íslenska landsliðsins fyrir miðri mynd. Mynd/EHF Kolektiff Images


„Þessi sigur skipti okkur öllu máli til að eiga áfram möguleika á sæti í átta liða úrslitum keppninnar. Það var allt annað sjá til strákanna strax frá byrjun. Varnarleikurinn var flottur frá upphafi til enda og að baki vörninni var fór Adam [Thorstensen] hamförum í markinu með 17 varin skot,“ sagði Heimir.

Adam Thorstensen fór hamförum í íslenska markinu að baki sterkri vörn. Mynd/EHF Kolektiff Images


„Þetta var flott afgreitt hjá strákunum. Við lögðum upp með að stöðva eitt og annað í sóknarleik ítalska liðsins sem hafði gengið vel hjá þeim í sigurleiknum við Serba í gær. Ítalska liðið er mjög taktískt og getur verið erfitt viðureignar ef ekki tekst að brjóta það á bak aftur. Við höfðum lagt mikla vinnu í að fara ofan í saumana á leik ítalska liðsins. Fyrir vikið tókst okkur að slökkva á þeim.“

Guðmundur Bragi Ástþórsson var markahæstur í dag með sex mörk. Mynd/EHF Kolektiff Images


Heimir sagði sóknarleik íslenska liðsins hafa batnað eftir því sem á leikinn leið. Það komi vel í ljós núna hversu slæmt það var að ná ekki að komast á æfingamót út svo liðið gæti spilað sig betur saman. „Við erum að vinna okkur út úr þeirri stöðu og ég er sáttur við þá leið sem við erum á.

Arnór Viðarsson og Jóhannes Berg Andrason sauma að Ítala í leiknum í dag. Kristófer Máni Jónasson fjær fylgist með framvindunni. Mynd/EHF Kolektiff Images.


Næst bíður okkur leikur við Serba á sunnudaginn sem við verðum að vinna til þess að komast í átta liða úrslit mótsins. Við nýtum morgundaginn í að búa okkur undir Serbaleikinn og spila okkur vel inn í mótið. Það væri gaman að mæta Arnóri [Atlason] og lærisveinum hans í danska landsliðinu. Síðast þegar ég var með Arnóri á Evrópumóti þá urðum við Evrópumeistarar,“ sagði Heimir Ríkarðsson þjálfari U19 ára landsliðs Íslands og rifjaði upp sigur Íslands á EM 18 ára landsliða sumarið 2003 þar sem Arnór var ásamt einvala liði ungra íslenskra handknattleiksmanna undir stjórn lögreglumannsins árvökula.

Viðureign Íslands og Serbíu hefst klukkan 12.30 á sunnudaginn. Hægt verður að fylgjast með leiknum í beinni og endurgjaldslausri útsendingu á ehftv.com.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -