„Liðið var ólíkt sjálfu sér að þessu sinni og braut sig svolítið úr því sem við höfðum lagt upp með,“ sagði Árni Stefán Guðjónsson þjálfari U19 ára landsliðs kvenna við handbolta.is í kvöld eftir sjö marka tap, 24:17, fyrir Tékkum í síðari vináttuleik landsliða þjóðanna í Louney í Tékklandi. Þar með tapaði íslenska liðið báðum viðureignunum við tékkneska liðið.
„Í fyrri hálfleik fengum nokkra brottrekstra á okkur og köstuðum þá boltanum alltof oft í hendurnar á Tékkunum og fengum fyrir vikið á okkur ódýr mörg í bakið. Við létum slá okkur út af laginu,“ sagði Árni Stefán sem var nokkuð sáttur við upphafskaflann í síðari hálfleik eftir að hafa verið fimm mörkum undir í hálfleik, 12:7.
Byrjaði vel í síðari hálfleik
„Eins og í fyrri leiknum í gær þá tókst okkur að vinna okkur inn í leikinn framan af síðari hálfleik. Við lékum bæði 6/0 og 5/1 vörn og náðum að riðla skipulaginu á sóknarleik Tékkanna. Á þessum kafla minnkuðum við muninn niður í tvö mörk. Í kjölfar þess að við fengum á okkur tvo brottrekstra með skömmu millibili, fjaraði undan leik okkar. Tékkar gengu á lagið. Eftir það vorum við í eltingaleik,“ sagði Árni Stefán ennfremur en hann var skiljanlega vonsvikinn yfir því hversu stórt tapið varð.
„Tékkneska liðið er hörkugott og vel þjálfað. Það átti sigurinn skilinn. Segja má að við höfum verið sjálfum okkur verst sem er ákveðinn lærdómur sem við drögum.
Ferðin í heild var góð þrátt fyrir úrslitin. Hörkugott að fá þessa leiki og komast út með hópinn og mæla okkur við lið sem er líka að fara á EM í sumar eins og við. Við eigum eftir að nýta upptökur af þessum leikjum og læra af þeim í næstu skrefum okkar í undirbúningnum,“ sagði Árni Stefán Guðjónsson þjálfari U19 ára landsliðs kvenna við handbolta.is í kvöld.
Mörk Íslands: Katrín Anna Ásmundsdóttir 5, Inga Dís Jóhannsdóttir 3, Alfa Brá Hagalín Oddsdóttir 2, Embla Steindórsdóttir 2, Hildur Lilja Jónsdóttir 2, Sara Dröfn Ríkharðsdóttir 2, Elísa Elíasdóttir 1.
Varin skot: Elísa Helga Sigurðardóttir 6, Ethel Gyða Bjarnasen 5.