- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

U19piltar: Vængbrotið íslenskt lið tapaði æfingaleik

Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Vængbrotið landslið Íslands í handknattleik pilta, skipað leikmönnum 19 ára og yngri, tapaði æfingaleik fyrir þýska landsliðinu í Lübeck í morgun, 43:30, eftir að hafa verið þremur mörkum undir að loknum fyrri hálfleik, 21:18. Tólf leikmenn tóku þátt í leiknum af Íslands hálfu en um þriðja leikinn var að ræða í sex daga æfinga- og keppnisferð liðsins til Þýskalands.

Fjóra leikmenn vantaði í íslenska liðið, annað hvort allan leikinn, eða í stórum hluta hans. Heimir Ríkarðsson annar þjálfara íslenska liðsins, sagði að fjarveran hafi komið niður á liðinu. M.a. voru báðir miðjumennirnir, Elmar Erlingsson og Reynir Þór Stefánsson, fjarverandi.

Atli Steinn fer ekki á HM

Einnig sat Breki Hrafn Árnason utan vallar vegna tognunar í lærvöðva. Atli Steinn Arnarsson er fingurbrotnaði í leiknum við Þýskaland á föstudaginn verður að draga sig út úr HM-hópnum að sögn Heimis. Vonir standa til að Breki Hrafn verði búinn að jafna sig þegar HM hefst 2. ágúst í Króatíu. Ljóst er að Breki Hrafn tekur ekki þátt í tveimur vináttuleikjum við Færeyinga um næstu helgi.

Vongóður um miðjumennina

Heimir sagði góðar vonir standa til þess að Elmar og Reynir Þór geti byrjað að æfa á ný þegar líður á vikuna. Ekki hafi verið ástæða til þess að tefla á tvær hættur að tefla þeim meiddum fram í leiknum í morgun. Reynir fékk högg á læri í leiknum við Þýskaland á föstudagskvöldið og Elmar högg á mjöðmina.

„Þessi leikur varð öðruvísi en til stóð vegna aðstæðna hjá okkur og við misstum Þjóðverja fram úr okkur þegar kom fram í síðari hálfleik,“ sagði Heimir við handbolta.is.

Mörk Íslands: Össur Haraldsson 8, Skarphéðinn Ívar Einarsson 6, Þorvaldur Örn Þorvaldsson 5, Andri Fannar Elísson 3, Eiður Rafn Valsson 3, Ívar Bessi Viðarsson 2, Birkir Snær Steinsson 1, Hinrik Hugi Heiðarsson 1, Kjartan Þór Júlíusson 1.
Varin skot: Ísak Steinsson 9.

U19 ára landsliðið með bikarinn sem það fékk fyrir sigurinn á þriggja landa mótinu í Lübeck. Mynd/Aðsend

Verðlaunahafhending var í morgun fyrir þriggja liða mótið í Lübeck sem lauk í gær. Íslenska liðið vann báða leikina og kemur heim með bikar í farteskinu. Þýskaland hafnaði í öðru sæti eftir sigur á Hollendingum sem ráku lestina.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -