Spánverjar fögnuðu sigri á Evrópumeistaramóti landsliða karla, skipuðum leikmönnum 20 ára og yngri, í Porto í dag. Með ævintýralegum endaspretti vann spænska liðið það portúgalska, 37:35, eftir að hafa skorað sex mörk í röð án þess að heimamönnum lánaðist að svara fyrir sig. Þetta er í þriðja sinn sem Spánverjar verða Evrópumeistarar í þessu aldursflokki. Þeir unnu einnig 2012 og 2016.
Frábær umgjörð var í kringum úrslitaleikinn í Porto og fengu heimamenn magnaðan stuðning en 4.000 áhorfendur voru á leiknum og tóku þeir nánast allir sem einn undir í þjóðsöng Portúgals áður en flautað var til leiks. Sjaldan hafa fleiri áhorfendur verið á úrslitaleik EM í þessum aldursflokki. Hæfði umgjörðin vel tveimur frábærum handknattleiksliðum sem mættust í úrslitaleik.
Heimamenn voru marki yfir í hálfleik, 16:15.
Serbar, sem gerðu jafntefli við íslenska landsliðið í upphafsleik sínum á mótinu, unnu Svía örugglega í leiknum um þriðja sætið, 30:26. Sænska landsliðið átti á brattan að sækja frá upphafi. Það skoraði þrjú síðustu mörk leiksins og tókst þar með aðeins að klóra í bakkann og draga úr yfirburðum þeim sem Serbar höfðu á leiknum lengst af.
Ungverjar hrepptu fimmta sætið með því að leggja Frakka, 35:29. Þjóðverjar hlutu sjöunda sætið eftir sigur á Dönum, 32:27. Arnór Atlason er þjálfari Dana.
Í gær unnu Slóvenar lið Færeyja í leiknum um 9. sæti og Ísland lagði Ítalíu og hlaut 11. sætið. Þar á eftir komu Pólland, Króatía, Noregur og Svartfjallaland.