Viðureign Íslands og Ítalíu um 11. sætið á Evrópumóti 20 ára landsliða í handknattleik karla hefst klukkan 15 í dag en ekki 16 eins og upphaflega var tilkynnt. Úrslit leiksins ráða því hvort liðið tryggir sér síðasta farseðilinn á heimsmeistaramót 21 árs landsliða sem haldið verður í Grikklandi og Þýskalandi frá 20. júní til 2. júlí á næsta ári. Þar af leiðandi er talsvert undir í leiknum í dag.
Íslensku piltarnir mættu þeim ítölsku í riðlakeppni mótsins 8. júlí. Máttu leikmenn íslenska liðsins sætta sig við að bíta í það súra epli í leikslok að tapa viðureigninni með eins marks mun, 27:26.
Undirbúningur fyrir leikinn í dag stendur yfir í herbúðum íslenska landsliðsins, eftir því sem næst verður komist. Allir leggjast á eitt að fara með sigur út býtum í dag og ljúka mótinu með HM-farseðilinn í höndunum.
Að vanda verður leikur íslenska landsliðsins í dag í textalýsingu á handbolti.is.
- Auglýsing -