Íslenska landsliðið sýndi hvers það er megnugt í morgun þegar það vann stórsigur á Svartfellingum, 41:28, í fyrri leik sínum í milliriðlakeppni Evrópumótsins í handknattleik karla, skipað leikmönnum 20 ára og yngri, í Porto. Þar með lifir vonin áfram um sæti á heimsmeistaramóti 21 árs landsliða sem fram fer á næsta sumri. Tíu efstu liðin á EM auk þýska landsliðsins öðlast farseðil á heimsmeistaramótið þegar upp verður staðið frá mótinu í Porto um næstu helgi.
Næsta viðureign íslenska landsliðsins verður á morgun gegn Króötum og þarf hún einnig að vinnast til þess að liðið komist í keppni um sæti níu til tólf á mótinu sem fram fer síðar í vikunni.
Íslenska liðið tók fljótlega völdin í leiknum við Svartfellinga. Liðið herti tökin jafnt og þétt eftir því sem á fyrri hálfleikinn leið eftir að hafa skorað þrjú mörk í röð og komist yfir, 12:9.
Að loknum fyrri hálfleik var munurinn fimm mörk, 18:13. Ísland komst fljótlega átta mörkum yfir í síðari hálfleik. Um skeið var um leik kattarins að músinni. Slíkur var munurinn. Íslensku piltarnir slökuðu ekkert á.
Varnarleikurinn var frábær og markvarslan einnig þar sem Adam Thorstensen stóð vaktina lengst af og fór á kostum. Sóknarleikurinn var einnig framúrskarandi svo leikmenn svartfellska liðsins fengu ekki við neitt ráðið.
Mörk Íslands: Andri Már Rúnarsson 9, Benedikt Gunnar Óskarsson 5/2, Gauti Gunnarsson 5, Símon Michael Guðjónsson 5, Arnór Viðarsson 4, Guðmundur Bragi Ástþórsson 4, Andri Finnsson 3, Ísak Gústafsson 3, Einar Bragi Aðalsteinsson 1, Kristófer Máni Jónasson 1, Tryggvi Þórisson 1.
Varin skot: Adam Thorstensen 16, 42% – Brynjar Vignir Sigurjónsson 2, 25%.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.