Íslenska landsliðið í handknattleik karla, skipað leikmönnum 20 ára og yngri, tapaði með átta marka mun fyrir Þýskalandi í lokaleik sínum í D-riðli Evrópumótsins í Porto í dag, 35:27, eftir að hafa verið tveimur mörkum undir að loknum fyrri hálfleik, 17:15.
Króatar og Svartfellingar næstir
Þar með er ljóst að íslenska landsliðið rekur lestina í D-riðli og fer stigalaust áfram í keppni um níunda til sextánda sæti mótsins. Tveir fyrstu leikirnir verða á þriðjudag og miðvikudag gegn Króötum og Svartfellingum. Að þeim leikjum loknum skýrist hvort Ísland leikur um níunda til tólfta sæti eða þrettánda til sextánda sætið um næstu helgi.
Íslenska liðið var sterkara fyrsta stundarfjórðunginn í dag gegn Þýskalandi og var þremur mörkum yfir, 10:7, eftir stundarfjórðung. Þjóðverjar skoruðu þá fimm mörk í röð, komust yfir og voru með yfirhöndina það sem eftir lifði leiksins að því undanskildu að jafnt var, 18:18, snemma í síðari hálfleik.
Illa gekk að opna þýsku vörnina í síðari hálfleik, vörnin hélt heldur ekki vel og fá hraðaupphlaup gáfust og þau sem fengust voru misjafnlega vel nýtt. Sóknarleikurinn var þungur og fljótlega var íslenska liðið komið fimm mörkum undir. Hvorki gekk né rak og Þjóðverjar juku forskotið jafnt og þétt og unnu stóran og afar öruggan sigur þegar upp var staðið.
Óhætt er að segja að íslensku piltarnir hafi ekki hitt á sinn besta dag að þessu sinni þegar mest á reið.
Jóhannes Berg Andrason lék ekki með að þessu sinni vegna meiðsla. Um miðjan síðari hálfleik í dag meiddist Þorsteinn Leó Gunnarsson á vinstri öxl og kom ekkert meira við sögu. Til viðbótar meiddist Andri Finnsson þegar skammt var til leiksloka.
Mörk Íslands: Símon Michael Guðjónsson 5, Andri Már Rúnarsson 4, Benedikt Gunnar Óskarsson 3/1, Kristófer Máni Jónasson 3, Þorsteinn Leó Gunnarsson 3, Andri Finnsson 2, Guðmundur Bragi Ástþórsson 2, Tryggvi Þórisson 2, Arnór Viðarsson 1, Einar Bragi Aðalsteinsson 1, Ísak Gústafsson 1.
Varin skot: Adam Thorstensen 5, 29% – Brynjar Vignir Sigurjónsson 3, 27%, Jón Þórareinn Þorsteinsson 2, 25%.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.