- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Umbarnir“ voru ekki vaknaðir!

Geir Hallsteinsson, Handknattleiksmaður ársins 1972 hjá Tímanum. Ólafur H. Jónsson, Björgvin Björgvinsson og Axel Axelsson voru einnig á blaði hjá lesendum blaðsins.
- Auglýsing -

Ekki er hægt að segja að „umboðsmenn“ hafi verið að þvælast fyrir handknattleiksmönnum á árum áður, þegar leikmenn héldu fyrst í víking til að herja á völlum víðs vegar um Vestur-Þýskalands.

 Félagaskipti voru ekki þekkt á uppvaxtarárum handknattleiksins. Þá ólust leikmenn upp í félögum og léku með þeim þar til skórnir voru lagðir á hilluna góðu. Til gamans má geta þess að fyrstu „stóru“ félagaskiptin á Íslandi voru 1964 þegar Gunnlaugur Hjálmarsson, landsliðsmaðurinn snjalli, og Gylfi bróðir hans gengu til liðs við Fram úr ÍR. Gunnlaugur skipti um félag, þar sem hann vildi ná árangri í íþróttagrein sinni. Gunnlaugur hafði t.d. aldrei orðið Íslandsmeistari, þó svo að hann hafi verið einn besti handknattleiksmaður landsins.

Gunnlaugur Hjálmarsson var fyrsti „stóri“ landsliðsmaðurinn, sem skipti um félag; fór úr ÍR í Fram 1964. Hér skorar hann í leik á HM í Austur-Þýskalandi 1958.

 Það kom að því að íslenskir handknattleiksmenn, sem vildu ná meiri árangri, horfðu til útlanda til að víkka sjóndeildarhringinn og öðlast meiri reynslu og þekkingu. FH og Fram börðust um meistaratitilinn upp úr 1960 og gerðu það í rúman áratug. Fyrst mættust liðin einu sinni, en 1963 var tekin upp tvöföld umferð, þannig að liðin mættust í tveimur leikjum. Þá voru aðeins tveir alvöruleikir á Íslandsmótinu; þegar liðin mættust og var alltaf fullt hús áhorfenda. Fyrst á Hálogalandi og síðan í Laugardalshöllinni. Tvisvar mættust liðin í aukaúrslitaleik.

 Þegar „umbarnir“ voru ekki vaknaðir til lífsins, voru það forráðamenn félaga sem fylgdust með leikmönnum á stóru mótunum, eins og á HM, ÓL eða B-keppnum, sem voru undankeppni fyrir stærri mótin. Fyrir utan það fengu þeir ábendingar frá ýmsum áhugamönnum, kunningjum og vinum leikmanna, þjálfurum og leikmönnum, Eins og fyrr segir, þá voru félagaskipti ekki tíð á árum áður. Leikmenn héldu tryggð við sín félög, enda andrúmsloft allt annað en nú til dags. Leikmenn vilja ná sem mestum árangri og sníða sér stakk eftir vexti.

 Geir reið á vaðið

 Geir Hallsteinsson, FH, hélt fyrstur landsliðsmanna á Íslandi í víking til Vestur-Þýskalands, 1973, og má segja að geta hans og styrkur hafi síðan opnað augu forráðamanna þýskra liða, að á Íslandsmiðum væru margir snjallir leikmenn, sem myndu styrkja lið þeirra. Þegar Geir fékk ekki leyfi til að leika með danska meistaraliðinu Stadion opnaðist gluggi, sem Geir ákvað að líta inn um.


Fréttir höfðu borist frá Vestur-Þýskalandi um að meistaraliðið Göppingen hafði áhuga á Geir, en það kom aldrei tilboð frá félaginu. Geir sagði að hann hefði meiri áhuga að leika í Danmörku en í Þýskalandi og spilaði tungumál þar stórt hlutverk.

 
Þegar ljóst var að Danmörk væri lokað fyrir útlendinga, þar sem þeir þurftu að hafa verið búsettir í Danmörku í hálft ár, horfði Geir til Vestur-Þýskalands. Hann tók sér penna í hönd og skrifaði bréf til Göppingen og bauð félaginu fram krafta sína. Sagði meðal annars í bréfinu að hann hafi leikið 74 landsleiki fyrir Ísland og skorað 375 mörk í þeim.

 Formaður Göppingen skrifaði Geir til baka og bauð hann velkominn; sendi Geir flugmiða fyrir hann, eiginkonuna Ingibjörgu Logadóttur og tveggja ára son þeirra, Arnar. „Viku síðar var hringt á bjöllunni heima hjá mér. Fyrir utan stóð Geir og fjölskylda, með tvær ferðatöskur.

 Ég sagði við Geir að 74 landsleikir og 375 mörk skipti ekki máli fyrir okkur. Aðalatriðið væri að honum liði vel og léku vel fyrir Göppingen. Fljótlega kom í ljós að Geir var himnasending fyrir okkur.“

  Geir gerði sjálfur sína samninga við Göppingen tvö keppnistímabil; 1973-1975. 

Ókunnugur maður hringdi dyrabjöllunni

 Mörg félög í Vestur-Þýskalandi höfðu áhuga á að fá Axel Axelsson, Fram, til sín, en skotharka hans var mikil og þá var hann þekktur fyrir línusendingar sínar. Nokkur félög sendu menn á heimsmeistarakeppnina í Austur-Þýskalandi 1974, þar sem Axel fór á kostum og skoraði t.d. sex mörk í leik gegn V-Þýskalandi og átti fimm línusendingar á Björgvin Björgvinsson, Fram, sem gáfu mörk. Samvinna þeirra félaga fékk áhorfendur til að hrópa upp af ánægju. Axel vann þar einvígið við Hansa Schmidt, sem skoraði einnig sex mörk, er Þjóðverjar fögnuðu sigri á „flensuliði“ Íslands í Erfurt, 22:16. Axel skoraði 18 mörk í þremur leikjum og var í hópi markahæstu manna eftir riðlakeppnina á HM.

 Axel var undir smásjánni hjá Dietzenbach og Hüttenberg. Axel hafði hug á að fara til Dietzenbach, en þegar liðið féll í suðurdeild „Bundesligunnar” minnkaði áhugi Axels á liðinu; hann vildi leika í efstu deild. Þegar annar þjálfari vestur-þýska landsliðsins, sem var einnig þjálfari hjá Dankersen, frétti að Dietzenbach væri fallið, bað hann forráðamenn liðsins að senda mann strax til Íslands til að fá Axel til Dankersen.

Geir Hallsteinsson, Handknattleiksmaður ársins 1972 hjá Tímanum. Ólafur H. Jónsson, Björgvin Björgvinsson og Axel Axelsson voru einnig á blaði hjá lesendum blaðsins.

 Það varð úr að Dieter Greafer, framkvæmdastjóri félagsins, var sendur til Íslands. Axel sagði þannig frá við greinarhöfund í Tímanum 10. maí 1974. „Það var hringt á dyrabjöllunni hjá mér eitt kvöldið. Þegar ég fór til dyra, var ég spurður hvort ég væri Axel Axelsson?“ Greafer ræddi við Axel og Kristbjörgu Magnúsdóttur, konu hans, og rétti þeim flugfarseðla og bauð þeim að koma og skoða aðstæður hjá liðinu. Þau fóru út og urðu hrifin af því sem þau sáu. Axel gerði samning.

 Eftir að Axel hætti hjá Dankersen 1983 var hann félaginu innan handar, í leit að leikmönnum. Þess má geta að 12 Íslendingar hafa leikið með Grun-Weiss Dankersen Minden.

Ólafur sóttur í vinnu!

 Það kom heldur engin umboðsmaður nálægt er Ólafur H. Jónsson, Val, gekk til liðs við Dankersen 1975. Axel og Ólafur höfðu náð vel saman í móti í Sviss 1974, þar sem Íslendingar lögðu Vestur-Þjóðverja í fyrsta skipti að velli, 18:15. Axel skoraði þrjú mörk, Ólafur fjögur. „Eftir leikinn ræddum við Axel við fyrirliða Dankersen, sem lék með þýska landsliðinu, og þá urðu umræður um hvort ég vildi ekki koma til Dankersen. Það var síðan á Norðurlandamótinu í Danmörku í febrúar 1975 að maður kom frá Dankersen til að fylgjast með okkur. Hann talaði lítillega við mig, en ekkert varð úr nánari viðræðum. Ég var svo hálfpartin hættur að hugsa um þetta,“ sagði Ólafur.


Ólafur sagði að einn laugardagsmorgun um vorið þegar hann mætti í vinnu í Sportvöruverslunina Vesturröst, sem hann rak með föður sínum, að í búðina kom maður til að hitta hann. „Þar var kominn formaður Dankersen, sem spurði hvort ég væri ekki tilbúinn að koma út og gerast leikmaður með Dankersen. Ég átti ekki von á formanninum og spurði hversvegna hann væri komin allt í einu til Íslands. Hann sagðist hafa lesið um í blöðum að annað félag væri á höttum eftir mér og þess vegna ákvað hann að koma og gera mér tilboð. Það var úr að ég og kona mín, Sigrún Árnadóttir, fórum út til að kynna okkur aðstæður í júní. Ég var mættur á æfingar hjá Dankersen í ágúst,” sagði Ólafur.

Já, umboðsmenn voru ekki starfandi á þessum árum. Þegar Einar Magnússon, Víkingi, gekk til liðs við Hamburger SV, var það kunningi Einars sem benti forráðamönnum Hamborgarliðsins á hann.

 * TV Grambke Bremen hafði samband við Axel þegar liðið var að leita eftir línumanni, 1978. Axel kom félaginu í samband við Björgvin Björgvinsson, sem tók boði félagsins. Forráðamaður félagsins hafði samband við Axel 1979 til að kanna hvort hann væri ekki tilbúinn til að koma og leika við hlið Björgvins. Axel sagði að hann væri ekki klár í þann slag, en benti félaginu að Gunnar Einarsson væri á lausu; væri hættur hjá Göppingen. Gunnar fór til Bremen.

 * Forráðamaður hjá Bayer Leverkusen hafði samband við Viggó Sigurðsson, sem var þá leikmaður með Barcelona á Spáni, á Baltic Cup (Eystrasaltskeppninni) í Þýskalandi 1980. Viggó, sem varð Spánarmeistari með Barcelona 1980, ákvað að taka tilboði Bayer Leverkusen. Björgvin Björgvinsson aðstoðaði Viggó við gerð samninga.

Sigurður Gunnarsson lyftir sér upp og skorar í landsleik 1980.

 Fríður flokkur til Reykjavíkur

 * Sigurður Gunnarsson, Víkingi, fetaði í fótspor Viggós og gekk til liðs við Bayer Leverkusen sumarið 1980. Sigurður, sem var þá 20 ára, hafði vakið mikla athygli með unglingalandsliðinu í Noregi 1977 og  í HM yngri landsliða (21 árs) í Danmörku og Svíþjóð 1979. Vlado Stenzel, landsliðsþjálfari V-Þjóðverja, sá Sigurð og félaga leggja þýska liðið að velli, 16:14. Stenzel var tæknilegur ráðgjafi hjá Bayer Leverkusen, benti forráðamönnum liðsins á Sigurð; þar væri á ferðinni maður framtíðarinnar. Það varð til þess að þrír æðstu menn Bayer Leverkusen komu til Reykjavíkur, formaður, framkvæmdastjóri og þjálfari, til að ganga frá samningi við Sigurð.

  Þannig gengu kaupin á eyrinni í þá daga. Leikmenn nýttu sér það að komast í sviðsljósið og „út í búðargluggann“ á hinum ýmsu mótum, til að sýna sig og sanna. Þeir urðu að gera það, því að ekki voru umboðsmenn komnir á ferðina.

  Þeir eru nú fjölmennur hópur. „Umbarnir“ sjá út unga leikmenn, sem þeir reyna síðan að koma á framfæri, sem er mjög gott. Það höfum við séð á stórmótum; nú síðast í Evrópukeppninni í Ungverjalandi og Slóvakíu. Við eigum marga leikmenn sem hafa farið ungir út og orðið öflugir með liðum í Þýskalandi, Danmörku, Noregi, Póllandi og Frakklandi.  Það er styrkur fyrir landsliðið.

Í næsta pistli förum við í Dortmunder Westfalenhalle; á einn sögulegasta úrslitaleik í „Bundesligunni“, þar sem tveir Íslendingar, Axel Axelsson og Ólafur H. Jónsson, fögnuðu Þýskalandsmeistaratitlinum á eftirminnilegan hátt.

Auf Wiedersehn

Fyrri greinar Sigmundar um brautryðjendur sem hann hefur skrifað fyrir handbolta.is:

Svana fyrst eftir „teinunum“ í Þýskalandi

„Furan“ og „rauðhærði villimaðurinn“

Geir himnasending fyrir Göppingen

Axel og Kristbjörg – meistarahjón!

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -