Valsmenn náðu á ný yfirhöndinni í rimmunni við ÍBV um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla í kvöld með eins marks sigri, 31:30, í frábærum handboltaleik í Origohöllinni á Hlíðarenda. Þar með hefur Valur náð í tvo vinninga en Eyjamenn einn og þurfa þeir fyrrnefndu einn vinning til þess að verða Íslandsmeistarar annað árið í röð.
Sigurinn stóð afar tæpt í kvöld eins og úrslitin gefa til kynna. Arnór Snær Óskarsson skoraði sigurmarkið þegar liðlega 20 sekúndur voru eftir. Leikmenn ÍBV lögðu í framhaldinu á ráðin með þjálfara sínum um leikkerfi sem hafði nærri því gengið upp. Dæmdur var ruðningur á Elmar Erlingsson, sem kom inn á sem sjöundi leikmaður inn á leikvöll á síðustu sekúndu. Elmar sótti að vörn Vals og sendi boltann á Theodór sem var á auðum sjó í hægra horni.
Rangur dómur
Ruðningsdómurinn á Elmar var að öllum líkindum rangur og hafði af ÍBV möguleikann á framlengingu. Mjög stór ákvörðun hjá dómurum leiksins, Sigurður Hirti Þrastarsyni og Svavari Ólafi Péturssyni, sem að mörgu leyti stóðu sig vel í einstaklega erfiðum leik. Þeir verða að taka ákvarðanir á augabragði og tóku væntanlega ranga ákvörðun á ögurstundu.
Hrós til beggja liða
Hrósa verður báðum liðum fyrir leikinn. Eyjamönnum fyrir að hafa í fullu tré við Valsmenn í hraða og baráttu frá upphafi til enda og Valsmönnum fyrir að takast að snúa við erfiðri stöðu á síðustu mínútum leiksins. Þeir voru fjórum mörkum undir þegar níu mínútur voru eftir. Í Eyjum á sunnudaginn voru Valsmenn yfir þegar níu mínútur voru eftir og spiluðu leikinn úr höndum sér. Að þessu sinni sneri þeir dæminu við.
Mikill hraði
Ofboðslegur hraði var í leiknum frá fyrstu til síðustu mínútu fyrri hálfleiks. Það var engu líkara en leikmönnum lægi hreinlega lífið á að klára leikinn. Mörkin komu nánast eins og á færibandi. Það gerðu mistökin líka. Hvað eftir annað virtist sem Eyjamenn væri að missa Valsmenn langt fram úr sér, 8:4, 10:6, 12:9, eftir 10 mínútur. ÍBV tapaði boltanum 10 sinnum á fyrstu 15 mínútunum en var samt aðeins tveimur mörkum undir. Markvarslan var heldur með Valsliðinu.
23 tapaðir boltar
Lítið róaðist yfir leikmönnum síðari stundarfjórðung fyrri hálfleiks. Þó gekk sóknarleikur Vals síður en áður. Eyjamönnum tókst að færa sér það í nyt og jafna metin, 17:17, á síðustu sekúndu hálfleiksins. Nökkvi Snær Óðinsson var þar að verki. Alls 34 mörk og 23 tapaðir boltanum. Þess utan mörg skot sem höfnuðu annað hvort í stöngunum eða framhjá mörkunum.
Fækkaði í hópnum
Eyjamenn voru sterkari þegar á leið síðari hálfleikinn en lentu í basli með sóknarleikinn á síðustu mínútunum. Skal reyndar engann undra því þá hafði flísast enn meira úr hópnum. Ásgeir Snær Vignisson fékk sína þriðju brottvísun þegar um 10 mínútur voru eftir. Sigtryggur Daði Rúnarsson var utan vallar meiddur og Rúnar Kárason var ekki með í kvöld fremur en á sunnudaginn.
Ekki er annað hægt en að dást að Eyjaliðinu sem hefur svo sannarlega risið úr öskustónni í tveimur síðustu leikjum gegn fullmönnuðu liði Vals. Þess utan þá eiga stuðningsmenn ÍBV heiður skilinn fyrir frábæra umgjörð. Þeir fjölmenntu á leikinn í kvöld og lögðu svo sannarlega sitt af mörkum.
Mörk Vals: Benedikt Gunnar Óskarsson 6/2, Arnór Snær Óskarsson 5/1, Magnús Óli Magnússon 5, Róbert Aron Hostert 5, Finnur Ingi Stefánsson 4, Stiven Tobar Valencia 3, Vignir Stefánsson 2, Þorgils Jón Svölu Baldursson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 11, 27,5%.
Mörk ÍBV: Arnór Viðarsson 5, Elmar Erlingsson 4, Kári Kristján Kristjánsson 4, Dagur Arnarsson 3, Theodór Sigurbjörnsson 3, Dánjal Ragnarsson 2, Nökkvi Snær Óðinsson 2, Ásgeir Snær Vignisson 2, Sveinn Jose Rivera 2, Sigtryggur Daði Rúnarsson 1, Róbert Sigurðarson 1, Gabríel Martinez Róbertsson 1.
Varin skot: Björn Viðar Björnsson 6/1, 22,2% – Petar Jokonvic 3, 23,1%.
Öll tölfræði leiksins er hjá HBStatz.
Handbolti.is var í Origohöllinni og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.