Víkingur og Fjölnir standa afar vel að vígi eftir fyrstu umferð fyrri hluta umspilsins um sæti í Olísdeild karla sem fram fór í kvöld. Bæði lið unnu sannfærandi sigri á andstæðingum sínum á heimavelli. Fjölnir lagði Þór, 30:22, í Dalhúsum og Víkingar kjöldrógu Kórdrengi með 14 marka mun, 32:18, í Safamýri.
Næstu leikir liðanna fara fram á mánudagskvöld. Víkingar heimsækja Kórdrengi suður á Ásvelli en Fjölnismenn fara norður yfir heiðar og leika við Þór í Íþróttahöllinni á Akureyri.
Leikmenn Þór héldu í við leikmenn Fjölnis í fyrri hálfleik í kvöld þótt heimamenn hafi aldrei tapað frumkvæðinu. Einu marki munaði í hálfleik, 14:13, Fjölni í vil. Fljótlega eftir að síðari hálfleikur hófst þá stungu leikmenn Fjölnis af. Þeir náðu mest níu marka forskoti.
Skoruðu átta mörk í röð
Eftir að hafa verð fimm mörkum yfir í hálfleik, 15:10, þá hófu Víkingar síðari hálfleik á sannkallaðri stórsókn. Þeir skoruðu átta fyrstu mörkin í hálfleiknum og náðu 13 marka forskoti. Þar með var öll spenna rokin út í veður og vind. Ljóst er að Víkingar ætla sér ekki að teygja lopann í þessu einvígi.
Sverrir Andrésson markvörður Víkings átti stórleik í kvöld. Hann varði alls 22 skot. Sverrir var talsvert frá keppni í vetur en er mættur tvíefldur til leiks.
Víkingur – Kórdrengir 32:18 (15:10).
Mörk Víkings: Gunnar Valdimar Johnsen 8, Guðjón Ágústsson 5, Styrmir Sigurðarson 5, Marinó Gauti Gunnlaugsson 2, Jóhann Reynir Gunnlaugsson 2, Halldór Ingi Óskarsson 2, Kristján Orri Jóhannsson 2, Jón Hjálmarsson 2, Logi Ágústsson 1, Agnar Ingi Rúnarsson 1.
Varin skot: Sverrir Andrésson 22.
Mörk Kórdrengja: Egidijus Mikalonis 8, Andri Heimir Friðriksson 3, Jónas Bragi Hafsteinsson 2, Hrannar Máni Gestsson 1, Tómas Helgi Wehmeier 1, Viktor Orri Þorsteinsson 1, Gísli Hafþór Þórðarson 1, Arne Karl Wehmeier 1.
Varin skot: Birkir Fannar Bragason 7, Birkir Fannar Bragason 4.
Fjölnir – Þór 30:22 (14:13).
Mörk Fjölnis: Benedikt Marinó Herdísarson 9, Viktor Berg Grétarsson 5, Elvar Þór Ólafsson 4, Goði Ingvar Sveinsson 3, Jón Ásgeir Eyjólfsson 2, Alex Máni Oddnýjarson 2, Sigurður Örn Þorsteinsson 2, Björgvin Páll Rúnarsson 2, Óðinn Freyr Heiðmarsson 1.
Varin skot: Andri Hansen 11.
Mörk Þórs: Arnór Þorri Þorsteinsson 7, Jonn Rói Tórfinnsson 4, Sævar Þór Stefánsson 3, Aron Hólm Kristjánsson 3, Arnþór Gylfi Finnsson 2, Jón Ólafur Þorsteinsson 2, Andri Snær Jóhannsson 1.
Varin skot: Kristján Páll Steinsson 5, Arnar Þór Fylkisson 3.