„Mér líst ágætlega á okkur. Ég held að við séum svolítið óskrifað blað,“ segir Bjarni Fritzson þjálfari ÍR, nýliða Olísdeildar karla í handknattleik í samtali við handbolta.is. ÍR-ingar unnu Grill 66-deildina í vor og eru þar með á ný á meðal þeirra bestu eftir að hafa fallið úr Olísdeildinni vorið 2023 að lokinni eins árs veru.
Líst vel á það sem við höfum sýnt
„Við höfum leikið nokkra undirbúningsleiki og mér líst vel á þá frammistöðu sem við höfum sýnt,“ segir Bjarni sem hefur nýtt tímann frá því í lok mars þegar ÍR lauk kepni í Grill 66-deildinni til að styrkja leikmenn líkamlega fyrir átökin sem framundan eru enda ekki vanþörf á með ungan leikmannahóp sem nær eingöngu er skipaður uppöldum ÍR-ingum.
Bjarni segir margar breytingar hafi átt sér stað á leikmannahópi ÍR eftir að liðið féll úr Olísdeildinni fyrir tveimur árum. „Við misstum nær alla útilínuna þegar við féllum og erum því með mjög unga leikmenn í burðarhlutverkum sem hafa reynslu úr Grillinu. Við erum með unga ferskra stráka sem eru tilbúnir að djöflast svolítið,“ segir Bjarni léttur í bragði og telur sína menn fara óhrædda í hvern leik.
Helstu breytingar:
Komnir: Arnór Freyr Stefánsson, Sigurvin Jarl Ármannsson.
Farnir: Enginn.
Hugrakkir strákar
„Þetta eru hugrakkir strákar og þéttur hópur. Við erum góðan grunn í varnarleiknum, reynda leikmenn sem styðja við okkur og ágæta markmenn. Við erum með ákveðna kjölfestu. Síðan eru það ungæðingsháttur og gleðin sem felst í að að vera ungur og mæta til leiks í Olísdeildina. Ég held að það geti gefið okkur pepp,“ sagði Bjarni Fritzson þjálfari karlaliðs ÍR.
Lengra myndskeiðsviðtal er við Bjarna efst í þessari frétt.
Nýliðarnir, ÍR og Fjölnir, mætast í fyrstu umferð Olísdeildar föstudaginn 6. september í Fjölnishöllinni.
Fleiri viðtöl við þjálfara Olísdeildar karla:
Vissi vel að það væri áskorun falin í þessu starfi
Ætlum okkur klárlega að gera betur en í fyrra
Erum ekki á þeim stað sem við viljum vera á
Það er engan bilbug á okkur að finna
Kíktu bara á vegginn, þetta er allt mjög skýrt hér
Fáum alvöru generalprufu fyrir Evrópuleikinn
Höfum mikinn áhuga á því að horfa ofar á töfluna í vetur