Handknattleiksmennirnir efnilegu, Harri Halldórsson og Stefán Magni Hjartarson, hafa skrifað undir nýja þriggja ára samninga við Aftureldingu. Báðir hafa verið í veigamiklum hlutverkum hjá Aftureldingu í vetur þrátt fyrir að vera að stíga sín fyrstu skref með meistaraflokki.
Fyrir utan að gera það gott með Aftureldingu áttu þeir sæti í 18 ára landsliðinu sem hafnaði í fjórða sæti á Evrópumótinu í Svartfjallalandi í ágúst. Ekki verður slegið slöku við um hátíðarnar. Stefán Magni og Harri leika með 19 ára landsliðinu sem tekur þátt í Sparkassen Cup-mótinu. 27. – 29. desember.
Hræðist ekkert
„Stefán Magni er á sínu þriðja tímabili í meistaraflokki þó hann sé einungis 18 ára og orðinn mikilvægur hluti af liðinu. Hann er eldsnöggur leikmaður sem hræðist ekkert og á það til að skora mikið af mörkum bæði úr horninu og hraðaupphlaupum. Þá er hann mikill baráttujaxl sem gefur ekkert eftir og leggur sig alltaf allan fram.“
Vaxandi hlutverk
„Harri, sem er 17 ára, kom inn í liðið í lok síðasta tímabils og hefur hlutverk hans stækkað töluvert í vetur. Hann er útispilari og þó hann sé mjög hraður og erfiður fyrir andstæðinga að eiga við er hann með góðan leikskilning og vill gera aðra betri. Að auki er hann góður varnarmaður,“ segir í tilkynningu frá Aftureldingu í morgun.
Byggja upp til framtíðar
„Er þetta mikilvægt skref í því að byggja upp framtíðar lið hjá Aftureldingu á næstu árum en það er stefnan að byggja liðið upp á leikmönnum sem aldir eru upp hjá félaginu og vinna vel með þann efnivið sem við höfum í yngri flokkunum,“ segir ennfremur í tilkynningu handknattleiksdeildar Aftureldingar.