Ungmennalið Fram tók upp þráðinn í kvöld þar sem frá var horfið í Grill 66-deild kvenna í handknattleik í kvöld þegar liðið lagði ÍR-inga, 33:19, í Framhúsinu í Safamýri. Framarar voru með yfirhöndina í leiknum frá upphafi til enda. Sjö mörkum munaði á liðunum að loknum fyrri hálfleik, 17:10. Með sigrinum tryggði Fram sér deildarmeistaratitilinn annað ári í röð. Lengra kemst liðið ekki því það á ekki rétt á sæti í Olísdeildinni á næstu leiktíð.
Fram hefur þar með fimm stiga forskot í efsta sæti deildarinnar. Liðið hefur unnið sér inn 26 stig í 15 leikjum og er fimm stigum á undan ungmennaliði Vals og sex á undan Aftureldingu sem stendur best að vígi af þeim liðum deildarinnar sem á möguleika á að fara upp í Olísdeildina á næsta keppnistímabili. ÍR er í fimmta sæti með 14 stig eftir 14 leiki og stefnir í að liðið keppi við Gróttu um rétt á sæti í umspili um sæti í Olísdeildinni.
Mörk Fram: Svala Júlía Gunnarsdóttir 9, Lena Margrét Valdimarsdóttir 6, Erna Guðlaug Gunnarsdóttir 6, Daðey Ásta Hálfdánsdóttir 5, Valgerður Arnalds 2, Harpa Elín Haraldsdóttir 2, Elína Ása Bjarnadóttir 2, Íris Anna Gísladóttir 1.
Mörk ÍR: Stefanía Ósk Hafberg 5, Matthildur Lilja Jónsdóttir 4, Hildur María Leifsdóttir 4, Ólöf Marína Hlynsdóttir 1, Auður Margrét Pálsdóttir 1, Theodóra Brynja Sveinsdóttir 1, Sylvía Jónsdóttir 1, Guðrún Maryam Rayadh 1, María Leifsdóttir 1.
Staðan í Grill 66-deild kvenna.