Ungmennalið Selfoss og Hauka buðu upp á markaveislu í Sethöllinni í kvöld þegar þau mættust í Grill66-deild karla í handknattleik. Alls voru skoruð 79 mörk í leiknum og þar af skoruðu gestirnir úr Haukum 40 af mörkunum. Selfossliðið varð að gera sér að góðu að skora 39 mörk.
Um var að ræða leik sem fram átti að fara í lok október en var frestað þá vegna covidsmita. Að þessu sinni voru menn klárir í slaginn og létu svo sannarlega verkin tala. Varnarleikurinn sat að mestu á hakanum á kostnað sóknarleiksins þar sem menn léku við hvern sinn fingurgóm.
Selfoss situr áfram í fimmta sæti deildarinnar með 12 stig að loknum 10 leikjum. Haukar eru næstir á eftir með 10 stig en hafa aðeins lokið níu leikjum.
Mörk Selfoss U.: Tryggvi Sigurberg Traustason 8, Sölvi Svavarsson 7, Tryggvi Þórisson 6, Vilhelm Freyr Steindórsson 6, Hans Jörgen Ólafsson 3, Árni Ísleifsson 2, Guðjón Baldur Ómarsson 2, Sæþór Atlason 2, Elvar Elí Hallgrímsson 2, Gunnar Flosi Grétarsson 1.
Mörk Hauka U.: Össur Haraldsson 8, Gísli Rúnar Jóhannsson 7, Birkir Steinsson 6, Þorfinnur Máni Björnsson 5, Jón Karl Einarsson 4, Jakob Aronsson 3, Þórarinn Þórarinsson 3, Kristófer Máni Jónasson 3, Lárus Þór Björgvinsson 1.
Stöðuna og næstu leiki í Grill66-deild karla má sjá hér.