- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Ungverjar hafa alltaf reynst erfiðir á stórmótum

Leikmenn íslenska landsliðsins fagna sigri á Ungverjum á EM fyrir tveimur árum í Búdapest. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Það hefur nánast verið sama hvernig árað hefur hjá íslenska landsliðinu í handknattleik karla. Ungverjar hafa alltaf verið erfiður andstæðingur. Jafnvel á mótum þar sem ungverska landsliðið hefur ekki verið í allra fremstu röð hefur því tekist að setja strik í reikning íslenska landsliðsins allt frá því að tapa fyrir þeim á HM 1964 í Tékkóslóvakíu sem sendi íslenska landsliðið heim.

Þá eins og stundum áður voru vonir bundnar við góðan árangur íslenska landsliðsins á HM, ekki síst í ljósi þess að það hafnaði í sjötta sæti á HM þremur árum fyrr.

Ungverjar voru andstæðingar Íslands á HM 1958 þegar Ísland var með í fyrsta sinn. Strax þá höfðu Ungverjar betur, 19:16.

Sjö leikir á EM

Sjö sinnum hafa Íslendingar og Ungverjar mæst á Evrópumóti. Ísland hefur unnið þrisvar, einu sinni var jafntefli, 27:27, á EM 2014 í Álaborg, en þrisvar hafa Ungverjar haft betur, síðast á EM 2020, 24:18. Íslenska landsliðið lagði Ungverja síðast á EM fyrir tveimur árum, 31:30, í Búdapest í þriðju og síðustu umferð riðlakeppninnar.

Sigri fagnað á Ungverjum á EM 2022. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Þrír sigrar á HM, sex töp

Á HM hefur gengið verr að vinna Ungverja. Ísland hefur unnið þrjár viðureignir af sex, 1993, 25:21, 23:20 á HM 1995 og 32:26 á HM 2011 í Norrköping í Svíþjóð.

Síðast mættust landslið Íslands og Ungverjalands á HM í Kristianstad 14. janúar á síðasta ári. Ungverjar unnu með tveggja marka mun, 30:28, eftir að hafa snúið við taflinu á síðasta stundarfjórðungi. Ísland var með sex marka forskot, 25:19, þegar 18 mínútur voru til leiksloka.

Skipbrot á Skáni

Að þessu sögðu þarf vart að rifja upp vonbrigðin á Ólympíuleikunum í London 2012 þegar Ungverjar unnu íslenska landsliðið í framlengdum leik, 34:33, í átta liða úrslitum þar sem núverandi landsliðsþjálfari kom talsvert við sögu.

Leikur Íslands og Ungverjalands í lokaumferð riðlakeppni EM 2024 hefst í Ólympíuhöllinni í München klukkan 19.30 í kvöld. M.a. verður hægt að fylgjast með textalýsingu á handbolti.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -