Ungverska meistaraliðið Veszprém vann Füchse Berlin með eins marks mun í hörkuleik í Max-Schmeling-Halle í Berlín í kvöld, 32:31, í Meistaradeild Evrópu í handknattleik karla. Leikmenn Füchse Berlin vöknuðu of seint en þeir voru fimm mörkum undir þegar rúmar fimm mínútur voru til leiksloka, 31:26.
Bjarki Már Elísson var í leikmannahópi ungversku meistaranna en skoraði ekki mark að þessu sinni. Sigurinn getur reynst Veszprém dýrmætur þegar upp verður staðið að riðlakeppninni lokinni snemma á næsta ári.
Staðan var jöfn í hálfleik, 16:16. Leikmenn Veszprém léku afar vel fyrstu 20 til 25 mínúturnar í síðari hálfleik og juku jafnt og þétt forskot sitt allt þar til Berlínarrefirnir vöknuðu upp við vondan draum.
Nedim Remili var allt í öllu hjá Vezprém og skoraði 11 mörk. Daninn Mathias Gidsel skoraði 10 mörk fyrir Berlínarliðið. Markverðir beggja liða, Dejan Milosavljev hjá Berlin og Rodrigo Corrales hjá Veszprém stóðu fyrir sínu og vörðu 17 skot hvor. Sá síðarnefndi bjargaði báðum stigunum á síðustu sekúndunum.
Sjö marka sigur
Pólska liðið Kielce vann króatísku meistarana Zagreb á heimavelli, 30:23, í áttunda og síðasta leik 1. umferðar Meistaradeildarinnar. Kielce tók öll völdin í leiknum í síðari hálfleik en jafnt var í hálfleik, 13:13. Þrátt fyrir blóðtöku í sumar þá er Kielce-liðið sterkt sem fyrr.
Igor Karacic skoraði fimm mörk fyrir Kielce. Milos Kos og Luka Klarica skoruðu fimm mörk hvor fyrir Zagreb.
Fyrri í kvöld vann Pick Szeged þýsku meistarana Magdeburg, 31:29, og Dinamo Búkarest lagði Fredericia, 37:29. Nánar er sagt frá þeim leikjum hér.
Í gær voru fjórir leikir í Meistardeildinni. Úrslit þeirra voru:
Sporting – Wisla Plock 34:29.
Kolstad – Barcelona 30:35.
Aalborg – Nantes 38:31.
PSG – Eurofarm Pelister 31:29.